Útilokar ekki gos í Lakagígum

Eldgos geti orðið á ný í Lakagígum ef réttar aðstæður …
Eldgos geti orðið á ný í Lakagígum ef réttar aðstæður myndast í eldstöðvakerfi Grímsvatna. mbl.s/Brynjar Gauti

Ekki er útilokað að aftur gjósi í Lakagígum, þó ekkert bendi til þess að það gerist á næstunni.

Þetta segir Freysteinn Sigmundsson hjá Norræna eldfjallasetrinu við Jarðvísindastofnun Háskólans, í svari sínu á Vísindavefnum, við spurningunni „Er einhver hætta á því að Lakagígar gjósi aftur?“

Þar segir að þekkt sé að margoft gjósi á svipuðum slóðum í megineldstöðvum, til að mynda í Grímsvötnum.

Í sprungusveimum utan megineldstöðva gjósi aftur á móti sjaldnar, eldgos verði þar á gígaröðum þar sem undir liggur kvikugangur.

7 gos á 11 mánaða tímabili

Lakagígar séu dæmi um slíka gígaröð utan megineldstöðva.

Reynslan segi til um að fleiri en eitt gostímabil geti átt sér stað á hverri gígaröð fyrir sig.

Endurtekin gos á sprungu í eldstöðvakerfi Svartsengja og Eldvarpa á Reykjanesskaga sé gott dæmi um slíkt. Þar hafi gosið sjö sinnum á Sundhnúkagígaröðinni á ellefu mánaða tímabili. Þá hafi áður gosið á sama stað fyrir um 2.400 árum.

Þessi fjöldi eldgosa á sama svæði verði vegna þess að magn kviku á leið til yfirborðs sé mikið meira en komist fyrir í kvikusöfnunarsvæðinu í jarðskorpunni. Þess vegna komi kvikan upp á yfirborðið í skömmtum, eða nokkrum minni eldgosum.

Eldstöðvakerfi Grímsvatna

Lakagígar séu eldstöð á sprungusveim utan Grímsvatna, megineldstöðvarinnar, en saman myndi sprungusveimur og megineldstöð það sem kallist eldstöðvakerfi. Ef kvika streymi inn í eldstöðvakerfi og veikleiki sé fyrir í jarðskorpunni geti því vel gosið á sama stað og áður.

Eldgos geti því orðið á ný í Lakagígum ef réttar aðstæður myndast í eldstöðvakerfi Grímsvatna og kvika leiti til yfirborðs í þeim hluta sprungusveims Grímsvatna þar sem Lakagígar eru.

Svar Vísindavefsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert