Árni Grétar Jóhannesson, sem þekktur er undir nafninu Futuregrapher, er látinn, en hann var ökumaður bíls sem hafnaði í sjónum í Reykjavíkurhöfn á gamlársdag.
Ólafur Sveinn Jóhannesson, bróðir Árna, greindi frá andlátinu á Facebook-síðu sinni í gær, en hann staðfesti andlátið jafnframt í samtali við mbl.is.
„Ástkær bróðir okkar - Árni Grétar Jóhannesson - hefur kvatt þennan heim Eftir hann liggur aragrúi tónverka, ljósmynda og texta sem lýsa fallegri sál,“ segir Ólafur í færslu sinni á Facebook. En fjölmargir hafa minnst Árna á samfélagsmiðlum í gær og í dag.
Árni var afkastamikill raftónlistarmaður og einn stofnenda Möller records. Hann kom fram á tónlistarhátíðum hér á landi eins Sónar Reykjavík, Extreme Chill, Aldrei fór ég suður og Iceland Airwaves. Þá kom hann einnig fram á tónlistarhátíðum erlendis; í Norður Ameríku og Evrópu. Hægt er að kynna sér verk Árna á vefsíðu hans futuregrapher.bandcamp.com.
Árni var 41 árs þegar hann lést.