Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar eiga að sýna svart á hvítu að vilji sé til þess að skapa aðstæður til að vextir haldi áfram að lækka. Það sé ekki hennar að segja hvernig ákvörðunartaka Seðlabankans fari fram, en það liggi fyrir að stöðugleiki í efnahagsmálum og ábyrg stjórn ríkisfjármála leiki þar stórt hlutverk.
Næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt 5. febrúar. Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti síðast í nóvember um 0,5 prósentustig og var það í annað skiptið í röð sem vextir voru lækkaðir. Í október voru vextir lækkaðir um 0,25 prósentustig, en það var í fyrsta skipti í fjögur ár sem Seðlabankinn lækkaði vexti.
Kristrún segir það liggja fyrir að full eining sé um það innan ríkisstjórnarinnar að ná efnahagslegum stöðugleika og vinna að lækkun vaxta. Skilaboð ríkisstjórnarinnar hafi verið skýr í þeim efnum og allar aðgerðir þurfi að taka mið af því.
„Við höfum til dæmis talað fyrir því að reyna að fara ekki í stór mál sem að fela í sér mikinn útgjaldaauka núna á vorþinginu. Frekar að einbeita okkur að skipulagsbreytingum, breyttri forgangsröðun og sækja þá frekar fjármagn í önnur verkefni eða forgangsraða innan ráðuneyta. Við erum að leggja okkur öll fram um að reyna frekar að finna fjármagn til að styrkja afkomuna, frekar en hið öfuga,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
„Þessi forgangsröðun á að sýna svart á hvítu að við séum viljug til þess að skapa aðstæður til þess að sjá vexti að halda áfram að lækka. Það er auðvitað mat Seðlabankans hvenær er rétt að gera það. Hugmyndin er svo sannarlega að ábyrg ríkisfjármál og ýmsar aðgerðir til að vinna að stöðugleika munu stuðla að lækkun vaxta, fyrr eða seinna.“
Aðspurð hvort það sé eitthvað í áherslumálum ríkisstjórnarinnar sem ráðist verði í á næstu vikum, sem Seðlabankinn geti tekið með í reikninginn, segir Kristrún:
„Það er ekki mitt að segja hvernig ákvörðunartaka hjá Seðlabankanum fer fram en auðvitað liggur það fyrir að stöðugleiki í efnahagsmálum og ábyrg stjórn ríkisfjármála leikur þarna ákveðið hlutverk, líka að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki í aðgerðum.
Ríkisstjórnin virði núverandi fjárlagaramma, þó hún hafi sínar áherslur og leiti leiða til að forgangsraða innan þess ramma, og leiti þá frekar að auknum tekjum eða hagræðingu.
„Meðal annars þessi hagræðingarverkefni sem við erum að fara af stað með núna sem er ekki bara þetta almenna samráð heldur líka vinna sem mun eiga sér stað strax inni í fjármálaráðuneytinu. Þetta eru bæði merki um skýrar aðgerðir til almennings og til Seðlabankans um að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af ríkisfjármálum.“