Vil ekki sjá eftir neinu í þessu lífi

Thelma Mogensen lýkur námi sínu í sumar.
Thelma Mogensen lýkur námi sínu í sumar. mbl.is/Ásdís

„Ég fékk tár í augun þegar ég frétti að ég væri komin inn. Langþráður draumur var að rætast,“ segir Thelma Mogensen, 25 ára leiklistarnemi, sem hóf fyrir hálfu öðru ári nám við hinn virta skóla Lee Strasberg Theatre and Film Institute í New York.

Um er að ræða tveggja ára nám og braustskráist Thelma því í sumar. 

En auðvitað var yfirþyrmandi að ganga þarna inn fyrsta daginn. „Bæði var það öll sagan en ekki síður að margir sem voru að hefja nám með mér voru búnir að gera ýmislegt áður í leiklist; sjálf var ég bara búin að vera í nokkrum tímum,“ segir hún.

Óttinn reyndist þó ástæðulaus. „Mér var mjög vel tekið og orkan í skólanum er virkilega góð. Hann er fullur af hæfileikaríku og metnaðarfullu fólki sem hvetur hvað annað til dáða. Sjálf hef ég myndað góð tengsl við marga samnemendur mína sem á ábyggilega eftir að gagnast mér vel í framtíðinni.“

Lee Strasberg Theatre and Film Institute var stofnaður 1969 en byggir á mun eldri grunni. Strasberg var ráðinn framkvæmdastjóri hins víðfræga leiklistarskóla Actors Studio árið 1951, þar sem fólk á borð við Marlon Brando, Marilyn Monroe og Al Pacino nutu leiðsagnar hans. Grunnstefið í þeim fræðum var hin svokallaða aðferð“ í leiklistinni eða „method“ en Strasberg er gjarnan kallaður faðir hennar í Bandaríkjunum.

Thelma í uppfærslu skólans á verkinu Significant Other fyrir jólin.
Thelma í uppfærslu skólans á verkinu Significant Other fyrir jólin. Ljósmynd/Valerie Terranova ​

Strasberg lést árið 1982, áttræður að aldri, en skólinn hefur haldið sínu striki allar götur síðan og fylgt uppleggi stofnandans. „Margir sem eru að kenna í skólanum lærðu hjá Strasberg sjálfum og elsti kennarinn er orðinn 91 árs, segir Thelma.

Lauk fyrst allt öðru námi

Leið Thelmu inn í leiklistina var nokkuð óvenjuleg. Eftir stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 2018 tók við fjögurra ára nám í hönnun og markaðsfræðum í Boston.

Að því námi loknu vorið 2022 nýtti Thelma dvalarleyfi sitt til að vinna eitt ár í Bandaríkjunum og færði sig þá yfir til New York og hóf störf hjá tískufyrirtækinu Rebag. „Á þeim tíma var ég mjög fókuseruð á að vera í tískubransanum í New York,“ segir Thelma sem býr í New York en er hér heima í jólafríi.

Þessi vetur átti aftur á móti eftir að verða örlagaríkur, bæði í ástum og námi. Hún kynntist nefnilega íslenskum manni, Styrmi Elí Ingólfssyni Vigdísarsyni, sem lagði á þeim tíma stund á leiklistarnám í heimsborginni. Þau kynntust gegnum Íslendingasamfélagið í New York og fóru að rugla saman reytum. Og viti menn, gamla, góða leiklistarbakterían sem blundað hafði í Thelmu frá blautu barnsbeini gaus upp. Með látum.

„Ég fór að lesa línur með Styrmi, vegna náms hans, taka upp prufur með honum og þar fram eftir götunum – og það kviknaði bara bál,“ segir Thelma. Til að gera langa sögu stutta. „Eftir það var ekki hægt að stöðva mig, ég skyldi sjálf fara í leiklistarnám. Ég er nefnilega týpan sem vill ekki sjá eftir neinu í þessu lífi.“

Nánar er rætt við Thelmu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert