Áslaug ætlar að leggja sitt af mörkum

Áslaug Arna var áður há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra.
Áslaug Arna var áður há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi ráðherra, ráðleggur nýrri ríkisstjórn að ráðast í breytingar á lögum um opinbera starfsmenn til að spara opinbert fé. Lagabreyting geti sparað tugi milljarða.

Á fimmtudag bauð ríkisstjórnin al­menn­ingi að senda inn til­lög­ur um hagræðingu, ein­föld­un stjórn­sýslu og sam­ein­ingu stofn­ana inn á sam­ráðsgátt. Tæplega tvö þúsund tillögur hafa borist frá al­menn­ingi.

Ein tillaga á dag

Í færslu á Facebook segir Áslaug Arna að á næstu dögum ætli hún að leggja sitt af mörkum þar sem ríkisstjórnina virðist vanta hugmyndir og koma með hagræðingartillögur, í það minnsta eina á dag og senda skjalið svo í samráðsgátt.

Fyrsta tillaga hennar er ráðast í breytingar á lögum um opinbera starfsmenn.

„Að minnsta kosti 20% af útgjöldum hins opinbera fer í launakostnað. Réttindi opinberra starfsmanna hamla verulega þeim sveigjanleika sem þörf er á í rekstri hins opinbera, bæði hvað varðar sameiningar stofnana, uppsagnir og framleiðni. Réttindi opinberra starfsmanna eru líka veruleg og á skjön við þá stöðu sem er uppi í dag að laun þeirra eru ekki lægri en á einkamarkaði eins og var þegar lögin voru sett. Mörg fyrirtæki standa í samkeppni við ríkið um starfsfólk sem býður upp á betri kjör. Aukinn sveigjanleiki með breyttum lögum mun því auka afköst, framleiðni og auðvelda fólki að losa um störf og stöður,“ skrifar Áslaug Arna.

Segir hún launakostnað ríkisins í heild yfir 300 milljarða. „Má því áætla að sparnaður af slíkum breytingum geti numið einhverjum tugum milljarða árlega til lengri tíma. Launakostnaður sveitarfélaga er líklega hlutfallslega mun hærri en hjá ríkinu og getur því sparað sveitarfélögum mikla fjármuni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert