Árið byrjar af krafti í Kringlunni en gífurlega mikil aðsókn hefur verið í verslunarmiðstöðina fyrstu dagana í janúar.
Þetta segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, í samtali við mbl.is.
Mikil aðsókn var í Kringluna á milli jóla og nýárs þar sem fólk var komið til að skipta og skila gjöfum sem og undirbúa áramótin.
„Svo byrjuðu útsölurnar bara af fullum krafti bara strax annan janúar og það er eiginlega bara sama sagan. Það er búið að vera mjög mikið að gera,“ segir Baldvina.
„Ég er nú ekki komin með tölur fyrir daginn í dag en það var alveg rosalega mikil aðsókn í gær. Það virðist vera að fólk sé að kynna sér útsölurnar og gera góð kaup. Veturinn er náttúrulega skollinn á af þunga og margir að skoða kuldafötin og skóna.“
Aðspurð segir hún útsöluna vera út janúar.
Er þá janúar sá mánuður á árinu þar sem mest er að gera?
„Allavega framan af janúar er rosalega mikið að gera.“
Nefnir Baldvina að enn meiri verðlækkanir komi svo þegar líða fer á mánuðinn.
„Þannig, já, það má alveg segja að þetta sé fjörugur mánuður.“
Aðspurð segir Baldvina aðsókn í desember hafa verið vel yfir meðallagi og að það sé einnig raunin fyrstu dagana í janúar.
„Þetta lofar mjög góðu og Kringlan er líka komin á fullt skrið eftir að hafa kannski svona haltrað seinni helming ársins í fyrra.“
Vísar þar markaðsstjórinn til brunans sem varð á þaki Kringlunnar og olli miklum vatns- og reykskemmdum í júní og hafði það áhrif á fjölda verslana í verslunarkjarnanum.
„Eftir að allt opnaði aftur í lok nóvember þá erum við búin að vera alveg á fljúgandi ferð.“