Um 500 manns voru mættir á skíði á Hlíðarfjalli í dag. Forstöðumaður Hlíðarfjalls segir daginn hafa verið örlítið rólegri í gær þegar svæðið opnaði.
„Skyggnið var bara þokkalegt. Það var allt í lagi en svo var bara smá vindur og við þurftum að loka fjarkanum, neðri stólalyftunni, um tíma en það er bara eins og það gengur,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann næstu daga líta vel út. Veðurskilyrðin séu góð og því ætti skíðasvæðið að vera opið áfram.
Og hvernig var mætingin í dag?
„Ég veit ekki alveg lokatölurnar en ég myndi telja að þetta hafi verið í kringum 500 manns.“
Skíðasvæðið var opnað í fyrsta skipti í vetur í gær og segir Brynjar mætingu hafa verið mjög góða en nefnir að alltaf sé þó rólegt í desember og janúar.
„Svo þegar vetrarfríin byrja þá verður þetta alveg bilun á hverjum degi.“
Segir Brynjar að mannfjöldi á svæðinu sé þá yfir 2.500 manns.
„Það er svolítið mikið fyrir okkar svæði.“