Viðbrögð ríkisstjórnarinnar ráða árangrinum

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Morgunblaðið/Karítas Guðjónsdóttir

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segist ánægður með fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um hagræðingu í ríkisrekstri. Hann leggur áherslu á hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar verði við tillögum sem berast frá almenningi.

„Ég fagna þessu samráðsferli. Þetta er frábært framtak og góð leið til að hefja störf nýrrar ríkisstjórnar.“

Þetta segir Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í samtali við mbl.is spurður hvernig honum litist á fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Pólitískt litróf skipti ekki máli

„Það eru fjölmörg tækifæri til að fara betur með opinbert fé og stjórnmálin eiga að geta sameinast um það. Það skiptir ekki máli hvar menn eru á hinu pólitíska litrófi, það á alltaf að vera sameiginlegt hagsmunamál okkar að fara sem best með fjármuni almennings.“

Spurður um þá leið sem ríkisstjórnin fer um að leita til almennings um álit segist Björn ánægður með það. Það sé verið að virkja fólk til þátttöku og bendir hann jafnframt á hversu mikill fjöldi umsagna hafi borist í samráðsgáttina.

Afnám sérréttinda opinberra starfsmanna

„Við hjá Viðskiptaráði erum að vinna umsögn þar sem við leggjum til það helsta sem er á okkar forgangslista varðandi aðgerðir til að hagræða í ríkisrekstri.“

Björn segir væntanlegar tillögur Viðskiptaráðs byggjast meðal annars á vinnu sem var gerð fyrir alþingiskosningarnar og síðustu fjárlög.

Hann segir mörg tækfæri fyrir hendi til að hagræða í ríkisrekstri. Nefnir hann sem dæmi að hætt verði niðurgreiðslum vegna rafbílakaupa, frjálsræði vegna veðmálastarfsemi aukið og að vaxtabótakerfi og hlutdeildarlán verði afnumin.

„Við höfum einnig lagt til fækkun stofnana um 23, niðurlagningu styrkja til stjórnmálaflokka, sölu nokkurra ríkisfyrirtækja og afnám sérréttinda opinberra starfsmanna.“

„Það verður prófsteinn“

„Aðalatriðið er ekki að kalla eftir athugasemdum og fá þær inn, heldur að vinna vel úr þeim og grípa til aðgerða. Viðbrögð nýrrar ríkisstjórnar munu því ráða árangrinum þegar uppi er staðið,“ segir Björn.

Hann tekur því fram að það sé jákvætt að ferlið sé hafið en að stærsta atriðið sé hver verði niðurstaðan og hvaða aðgerðir verði ráðist í.

„Þar mun reyna mest á nýja ríkisstjórn, hefur hún burði til að takast á við mál þar sem fámennir hópar standa í vegi fyrir kerfisbreytingum eða hagræðingum sem myndu spara almenningi skattfé. Það verður prófsteinninn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert