Rúmlega fimmtugur karlmaður hefur verið dæmdur í mánaðar fangelsi fyrir að hafa brotist inn í verslun Hjálpræðishersins á Akureyri, en þaðan stal hann ótilgreindu magni af skiptimynt úr afgreiðslukassa.
Jafnframt var maðurinn fundinn sekur um að hafa stolið rafmagnshlaupahjóli úr sameign í fjölbýlishúsi í bænum.
Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra kemur fram að maðurinn hafi játað brot sín. Hann er með sakaferil sem nær aftur til ársins 1992 og hefur hann meðal annars hlotið dóma frá árinu 2017 fyrir þjófnað, umferðarlagabrot, líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum.