Karlmaður á fimmtugsaldri neitaði sök í manndrápsmáli í Neskaupstað við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Austurlands nú eftir hádegi í dag. Ekki var farið fram á yfirmat á geðmati sem gert var á manninum við rannsókn þess hjá lögreglu.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi og vistun síðan í ágúst þegar hann var handtekinn. Er hann grunaður um að hafa valdið dauða hjóna á áttræðisaldri sem fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað í ágúst.
Að sögn vitna sást maðurinn við hús hjónanna að kvöldi 21. ágúst og segjast vitni skömmu síðar hafa heyrt „þung bank-högg“ úr íbúðinni. Sjúkraflutningamenn komu fyrstir á vettvang og greindu lögreglunni frá því að fólkið væri greinilega látið.
Þinghaldið fór að miklu leyti fram í gegnum fjarfundabúnað, en maðurinn var sjálfur ekki í dómsal. Það voru ekki heldur saksóknari eða verjandi, sem nýttu sér fjarfundabúnað.
Maðurinn er auk manndráps ákærður fyrir vopnalagabrot og játaði hann sök í þeim hluta ákærunnar.
Fram kom hjá verjanda mannsins að ekki væri farið fram á yfirmat á geðmatinu, þar sem matið sem lægi fyrir væri svo afgerandi.
Næsta fyrirtaka málsins verður 16. janúar klukkan 13:00, en þá mun verjandi skila greinargerð sinni. Í þingfestingunni var einnig rætt um mögulegan tíma á aðalmeðferð og eftir samræðu við verjanda og saksóknara horfði dómari til byrjunar mars, en engin endanleg ákvörðun var þó tekin um þá tímasetningu.
Í þingfestingunni kom jafnframt fram að dómarinn væri að skoða að hafa fjölskipaðan dóm, þ.e. að hafa meðdómara með sér í málinu. Hljómaði eins og dómarinn væri áfram um það, en ekki væri hins vegar búið að finna meðdómara.
Þinghaldið var ekki lokað, en hvorki verjandi né sækjandi fóru fram á það. Hins vegar var því haldið til haga að vitað væri af liðum innan málsins sem gætu kallað á að farið yrði fram á að sá hluti málsins væri lokaður.