Andrea Sigurðardóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, segist ekki vera búinn að taka ákvörðun um formannsframboð.
Guðlaugur Þór, sem er staddur í Mexíkó, segir brotthvarf Bjarna Benediktssonar, fráfarandi formanns flokksins, af stjórnmálasviðinu stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum.
„Bjarna verður minnst sem eins af okkar allra öflugustu stjórnmálamönnum. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er forysta hans í endurreisninni eftir fjármálahrunið, en aðgerðirnar sem hann hafði forystu um skiluðu þjóðarbúinu gríðarlega miklu og almenningi mjög bættum lífskjörum,“ segir Guðlaugur Þór á þessum tímamótum.
Hyggst þú gefa kost á þér sem formaður Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi flokksins?
„Það kemur ekki upp í hugann á þessum tímapunkti að taka slíkar ákvarðanir“.
Hvenær sérðu fyrir þér að ákvörðun liggi fyrir?
„Það kemur bara í ljós. Það á eftir að taka endanlega ákvörðun um hvenær landsfundur verður haldinn. Það skiptir miklu máli að við vöndum vel til verka, þetta eru mikil tímamót og mikilvægt að við sjálfstæðismenn séum samstíga í því verkefni að endurheimta forystu flokksins í þjóðmálunum.“
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er fyrirhugaður í febrúar en skiptar skoðanir eru meðal flokksmanna hvort fresta eigi fundinum. Þó nokkrir sjálfstæðismenn hafa verið orðaðir við formannsframboð og er Guðlaugur Þór þeirra á meðal.