Aldrei verið reynt því hugmyndin þótti galin

Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur segir það merkilegt að enginn hafi áður reynt að leita að Höfðaskipi og þeim verðmætum sem voru um borð úti fyrir Langanesi. 

Hugsanlega sé það vegna þess að hugmyndin um að leita að skipi sem sökk á 17. öld sé galin. Sjálf hafi hún hugsað það áður en hún ráðfærði sig við neðansjávarfornleifafræðinga. Hún er nú bjartsýn á að þetta sé hægt.

Steinunn ræddi við Hólmfríði Maríu Ragnhildardóttur í Dagmálum.

Aldrei hafi jafn verðmætt skip sokkið

Flutningaskipið Höfðaskip var drekkhlaðið verðmætum þegar það fórst í ofsaveðri haustið 1682 úti fyrir Langanesi. 

Um borð í skipinu var meðal annars Hannes Þorleifsson, forveri Árna Magnússonar, og fjöldi handrita sem hann hafði safnað. Enginn veit nákvæmlega hvaða verðmæti voru um borð í skipinu.

„Þess er getið í töluvert mörgum annálum að aldrei hafi jafn verðmætt skip – eða skip með jafnmörgum verðmætum sokkið við Ísland. Eitthvað var nú þarna um borð,“ segir Steinunn.

Hún stýrir nú rannsókn um skipið í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Hyggst rannsóknarteymið leita að skipinu.

„Ég held það megi segja það, að þetta sé fjársjóðsleit.“

Árni átti sviðið

Hafa íbúar þarna á þessu svæði eða rannsakendur á undan ekki gert tilraun til þess að reyna að finna þetta skip fyrst að þarna um borð voru svona ofboðslega mikil verðmæti?

„Ég veit ekki til þess og mér finnst það svolítið merkilegt að það hafi ekki verið gert. Ég held að það hafi ekki verið mikið hugsað út í þetta. Það er svona – Árni Magnússon hefur átt sviðið þannig að ég hef það svona á tilfinningunni að það hafi kannski verið gert lítið úr þessu,“ segir Steinunn og bætir við:

„Svo er það líka það, að leita að sokknu skipi – nokkurra alda og allt þetta, ég held að fólk – og mér líka, mér fannst þetta galin hugmynd til að byrja með en eftir að hafa talað við neðansjávarfornleifafræðinga þá er þetta alveg hægt.“

Verðmætar upplýsingar sem þóttu ómerkilegar

Hún segir heimafólk búa yfir ofboðslega mikilvægum upplýsingum varðandi leitina. Það viti til að mynda af skipverjum sem hafi fengið brak upp í netin, upplýsingar sem hafi aldrei verið skrásettar heldur gangi manna á milli.

„Það kannski þótti ekki merkilegt að þau væru að finna eitthvað, net að festast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert