Ekkert útkall um aðstoð borist til Íslands

Sólveig Þorvaldsdóttir var hópstjóri íslenska hópsins sem fór til Tyrklands …
Sólveig Þorvaldsdóttir var hópstjóri íslenska hópsins sem fór til Tyrklands vegna hamfaranna þar snemma árs 2023. Ljósmynd/Landsbjörg

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hefur ekki verið kölluð út til aðstoðar vegna jarðskjálftans sem varð í Tíbet í nótt.

Greint var frá því í morgun að tæplega 100 væru látnir og 130 slasaðir eftir jarðskjálftann sem var 7,1 að stærð.

3500 leitar- og björgunarmenn á staðnum

Sólveig Þorvaldsdóttir, sem fór fyrir íslensku aðgerðasveitinni þegar stór jarðskjálfti varð í Tyrklandi árið 2023, segir að ekkert alþjóðlegt útkall hafi komið í gegnum Sameinuðu þjóðirnar frá yfirvöldum í Kína vegna skjálftans í Tíbet.

„En ég veit, í gegnum mína kanala, að það eru 3.500 kínverskir leitar- og björgunarmenn komnir á staðinn og 500 sjúkraliðar.“

Ólíklegt að beðið verði um aðstoð

Segir hún Kína eiga margar rústabjörgunarsveitir og finnst henni því ólíklegt að beðið verði um alþjóðlega aðstoð.

„Þetta eru upplýsingarnar sem ég hef og ég get sem sagt staðfest það að það er ekkert alþjóðlegt útkall í gangi í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. Við erum með vefsíðu sem við eigum samskipti í gegnum og ef það væri útkall í gangi þá væri það komið þar inn, en það er ekkert.“

Hún tekur samt fram að þó að ekkert útkall um alþjóðlega aðstoð hafi borist frá Kína í gegnum Sameinuðu þjóðirnar megi vel vera að landið biðji aðrar vinaþjóðir um aðstoð vegna jarðskjálftans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert