„Ég hefði viljað fá að vinna með honum. Það verður svona söknuður af honum úr stjórnmálalífinu og hvað þá fyrir okkur Sjálfstæðismenn. Hann er búinn að vera virkilega öflugur málsvari okkar,“ segir Jón Pétur Zimsen, nýkjörinn alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, um Bjarna Benediktsson.
Bjarni tilkynnti í gær að hann hygðist ekki gefa kost á sér til formennsku flokksins og hygðist sömuleiðis segja af sér þingmennsku.
Jón Pétur segir það leiðinlegt að hann muni ekki fá tækifæri til að starfa með Bjarna sem hann segir vera kláran mann með gífurlega reynslu í stjórnmálum.
„Mér finnst hann alltaf hafa komið fram, af því sem ég hef séð af honum, sem heilsteyptur karakter sem er ekki í neinu baktjaldamakki og þannig. Hann er bara hreinn og beinn finnst mér.“
Kom ákvörðunin á óvart?
„Ég taldi að það væri svona 50/50 að þetta myndi gerast. Mér fannst hann reyndar svo flottur í Kryddsíldinni, eins og það væri búið að kvikna svona í honum aftur. Og hann er kannski bestur í því þegar það er sótt að honum og hann þarf svona að bíta aðeins frá sér.“
Telur Jón Pétur að Bjarni hefði verið frábær leiðtogi til að leiða flokkinn áfram, nú í stjórnarandstöðu, en ber hann þó virðingu fyrir ákvörðun formannsins.
„Hann er náttúrulega búinn að eyða stórum hluta ævi sinnar í þessu og er þá búinn að vera opinber persóna,“ segir Jón Pétur og nefnir að honum finnist eins og hálfgert skotleyfi hafi verið á Bjarna í samfélaginu.
„Hann er náttúrulega ungur maður enn þá og hann getur farið að gera eitthvað annað sem ber ekki svona svakalega mikið á honum.“
Stefnt er á að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar og verður þar nýr formaður kosinn og segist Jón Pétur vilja að flokkurinn komi sameinaður og sterkur frá þeim fundi.
„Sama hvernig þetta endar og hver sem verður kosinn formaður, þá vil ég að við náum að sameinast um þann einstakling.“
Sjálfur segist Jón Pétur ekki vera að íhuga framboð.
„Ég sjálfur hef ekki pælt mikið í öðru en að vera bara þingmaður. Mér finnst alveg nóg að fá að spreyta mig bara í þingmennsku.
En ef það kæmi eitthvað upp þá myndi ég ekkert skorast undan ábyrgð en það er ekki eitthvað sem ég stefni á eða sækist eftir eins og staðan er núna í dag.“
Er einhver sérstakur sem þú myndir helst vilja sjá í forystunni?
„Bara eitthvað sameiningarafl. Auðvitað eru þarna nokkur nöfn sem eru líklegust en það þarf að leyfa þeim að bara stíga fram og svo veit maður ekkert hvort það verði einhver utan þings sem vill bjóða sig fram líka. Þetta er svo nýskeð að maður vill aðeins sjá hvernig þetta botnfellur allt.“