Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, er með lögheimili á afskekktum sveitabæ í eigu móður hans og fjölskyldu.
Enginn býr á bænum og sjálfur býr Eyjólfur í Reykjavík.
Hann hefur aldrei búið í Norðvesturkjördæmi.
Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í dag.
Eyjólfur er með skráð lögheimili að Hrafnabjörgum 1 í Lokinhamradal í Arnarfirði. Samkvæmt fasteignayfirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru þinglýstir eigendur móðir Eyjólfs og systir hennar.
Býrðu þar?
„Nei. Ég held ekki heimili. Það er tvenns konar. Annars vegar ertu með lögheimili í kjördæminu og heldur heimili og hins vegar eru þingmenn sem eru með lögheimili í kjördæminu og halda ekki heimili,“ svarar Eyjólfur en hann kveðst búa á Flókagötu í Reykjavík.
Kristinn Gunnar K. Lyngmo, deildarstjóri hjá Vegagerðinni á Vestfjörðum, segir að engin vetraþjónusta sé á veginum að Hrafnabjörgum, þar sem „það er enginn þarna“.
„Opnar svona í kringum júní,“ segir hann um veginn að bænum.
Hvað er langt síðan þú bjóst í Norðvesturkjördæmi?
„Ég hef ekki búið þar,“ segir Eyjólfur.
Spurður hverjar tengingar hans við kjördæmið séu segist hann sem ungur maður hafa verið í sveit á Hrafnabjörgum. Var hann sendur í sveit hjá móðursystur sinni þar átta ára gamall og átti hann nokkrar þjóðlendur í kjördæminu.
„Gamall smali. Ég skrifaði greinar í Bændablaðið um þjóðlendumál og titlaði mig þá sem fyrrum smala í lokin og lögfræðing,“ segir hann og hlær.
Alþingismaður fyrir kjördæmi utan Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis fær mánaðarlega greiddar 185.500 krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað í samræmi við lög.
Eyjólfur fékk slíkar greiðslur á síðasta kjörtímabili eins og allir landsbyggðarþingmenn.
Haldi alþingismaður, sem á aðalheimili utan höfuðborgarsvæðis, annað heimili í Reykjavík getur hann óskað eftir að fá greitt álag, 40%, á þá fjárhæð, en Eyjólfur hefur ekki þegið slíkar greiðslur.