Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu um að stjórnsýsluúttekt verði gerð á skipulagsferli í Álfabakka 2a á borgarstjórnarfundi sem nú er í gangi. Eins og fram hefur komið var reist vöruskemma steinsnar frá íbúahúsnæði við Árskóga í Breiðholti. Oddviti sjálfstæðismanna sakaði skipulagsfulltrúa um að hafa gert lítið úr áhyggjum íbúa.
Þykir framkvæmdin afar umdeild þar sem hluti íbúa fjölbýlishúss við Árskóga býr við skerta sýn eftir að húsnæðið var reist. Þá er fyrirséð að þungaflutningar muni fara í gegnum íbúahverfið sökum eðlis þeirrar starfsemi er í vöruskemmunni.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, steig fyrst í pontu þegar rætt var um málið á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins. Sagði hún málið „óafsakanlegt klúður“ og að engin skýr svör hafi borist frá borgarfulltrúum meirihlutans.
„Hér er það hafið yfir allan vafa að borgarstjórn hefur valdið gríðarlegu tjóni á fasteignum fólks,“ sagði Marta í pontu. Kallaði hún eftir ítarlegri og óháðri rannsókn á skipulagsferlinu.
„Mistök eru til að læra af þeim og lágmarka þannig líkur á að þau endutaki sig. Að öðrum kosti vinna borgaryfirvöld ekki aftur þann trúnað sem þau hafa nú glatað hjá borgarfulltrúum,“ segir Marta.
Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna segir að leynd hafi hvílt yfir þeirri starfsemi sem átti að rísa á lóðunum. Þá hafi skipulagsfulltrúi gert lítið úr áhyggjum íbúa af hárri byggingu og skuggavarpi í næsta nágrenni við Árskóga. Hins vegar hafi sú orðið raunin þegar uppi var staðið. Skipulagsfulltrúi hafi því ekki sagt rétt frá, að sögn Hildar.
Þá segir hún borgarfulltrúa ekki hafa fengið að vita neitt um útlit byggingarinnar eða svæðisins.
„Í skipulagsráði eða borgarráði fengum við málið aldrei inn á borð til okkar. Við fengum aldrei þrívíðar teikningar af húsinu sem þar átti að rísa. Við fengum aldrei afstöðumyndir sem sýna hvernig húsið átti að rísa í samhengi við nærliggjandi byggð og við fengum aldrei myndir af skuggavarpi. Kjörnum fulltrúum, sérstaklega í minnihlutanum, var aldrei gefið tækifæri til að taka afstöðu til uppbyggingar á Álfabakka,“ segir Hildur.