Samþykkja stjórnsýsluúttekt við Álfabakka

Borgarstjóri segir mikilvægt að læra af þeim mistökum sem gerð …
Borgarstjóri segir mikilvægt að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið en brýnt að horfa til framtíðar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Borgarstjórn samþykkti í dag að fara í stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli við Álfabakka 2a í Suður-Mjódd þar sem stærðarinnar vöruhús hefur risið, íbúum til mikils ama.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að innri endurskoðun borgarinnar verði falið að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu.

Jafnframt verði hafin vinna við að endurskoða feril skipulagsmála innan borgarinnar.

„Til að tryggja frekari gæði“

Er haft eftir Einari Þorsteinssyni borgarstjóra að mikilvægt sé að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið en sömuleiðis brýnt að horfa til framtíðar og koma í veg fyrir að annað eins geti gerst aftur.

„Þess vegna viljum við skoða málið ofan í kjölinn, greina hvar má gera betur í stjórnsýslunni og endurskoða feril skipulagsmála hjá borginni til að tryggja frekari gæði.“

Líta til erlendra fyrirmynda

Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar.

Fengin verður aðstoð sérfræðinga utan borgarinnar í arkitektúr og borgarhönnun. Meðal verkefna verður að tryggja í ferlinu að fyrir hendi sé öryggisventill svo hægt sé að grípa inn í ef verkefni stefna fyrirsjáanlega í neikvæða átt eftir samþykkt skipulags.

Aðferðafræði sem gengur út á að hönnun stærri verkefna sé komin lengra í ferlinu við deiliskipulagsgerð verður einnig tekin til skoðunar svo ekki sé verið að samþykkja skipulagsheimildir sem ófyrirsjáanlegt er hvernig spilast úr. Skoðuð verða fordæmi og fyrirmyndir erlendis frá í þessu samhengi.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/31/undirbua_undirskriftir/

Í úttekt innri endurskoðunar borgarinnar verði meðal annars tekið tillit til:

  1. Ákvarðanatökuferlisins í málinu.
  2. Tímalínu málsins, frá upphafi til loka.
  3. Regluverksins og framkvæmd þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum.
  4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar.
  5. Athugasemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim athugasemdum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert