Dómsmálaráðherra hefur óskað eftir gögnum um hallarekstur Fangelsismálastofnunar en til stendur að fara í hagræðingaraðgerðir á borð við það að hægja á boðun fanga í afplánun. Í nútímasamfélagi er óboðlegt að menn afpláni ekki sína dóma.
Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.
80 milljóna króna halli er á rekstri Fangelsismálastofnunar og Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, kynnti í desember ýmsar hagræðingartillögur.
Meðal þeirra eru tillögur um að hægja á boðun nýrra fanga í afplánun sem eru á boðunarlista, sem eru um 700, og fækka um allt að sex stöðugildi fangavarða vegna fjárskorts.
„Ég hef óskað eftir nánari upplýsingum um þessa tölu. Mér finnst í fljótu bragði að þessar tölur ættu ekki að kalla á svo róttækar aðgerðir. Þess vegna óskaði ég líka eftir gögnum um það hverjar tölurnar séu og hvað þetta þýðir,“ segir Þorbjörg.
Birgir sagði ekki ólíklegt að hagræðingin myndi hafa þau áhrif að dómar muni í auknum mæli fyrnast. Fleiri glæpamenn gætu því sloppið við afplánun.
„Mér finnst að í nútímasamfélagi sé það auðvitað algjörlega óboðleg staða að menn sem dæmdir hafa verið fyrir afbrot af dómstólum landsins afpláni ekki þá dóma. Sér í lagi ef ástæðan er sú að það eru yfirvöld sem ekki kalla þá inn til afplánunar. Þannig það er algjörlega markmið mitt sem dómsmálaráðherra að svo sé ekki,“ segir Þorbjörg.
Hún ætlar að skoða nánar fjárhag Fangelsismálastofnunar og sjá hvort að hægt sé að forðast of afdrifaríkar aðgerðir vegna hallarekstursins.