Almenningur lét ekki segja sér það tvisvar þegar opnað var fyrir þann möguleika í samráðsgátt stjórnvalda að hann mætti leggja fram tillögur til sparnaðar í ríkisrekstri. Á örfáum dögum hefur á þriðja þúsund ábendinga borist og kennir þar ýmissa grasa eins og Morgunblaðið hefur fjallað um.
Í tilkynningu í samráðsgáttinni segir að sérstakur starfshópur á vegum forsætisráðuneytis muni fara yfir „allar ábendingar“ og að niðurstöðurnar verði nýttar til að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í ríkisrekstri.
Samkvæmt svari frá forsætisráðuneytinu er ekki enn búið að skipa í hinn sérstaka starfshóp. Hins vegar muni þrír fulltrúar sitja í honum og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra velji þríeykið í samráði við formenn samstarfsflokkanna.
Niðurstöður samráðsins verða birtar eins hratt og auðið er að sögn upplýsingafulltrúa ráðuneytisins en vinna hagræðingarhópsins muni taka lengri tíma.
„Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins muni nýtast með ýmsum hætti á kjörtímabilinu, þ. á m. við gerð fjármálaáætlunar. Næstu skref í hagræðingarverkefni ríkisstjórnarinnar verða kynnt á komandi vikum,“ segir enn fremur í svari ráðuneytisins.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag