Starfsfólk veitingastaðarins Flame var í fullum rétti til að ganga úr störfum sínum vegna vanefnda vinnuveitandans gagnvart því. Þetta dæmi Héraðsdómur Reykjaness í máli stéttarfélagsins MATVÍS gegn Flame á mánudaginn og féllst á allar kröfur félagsins auk útreikninga kjaradeildar Fagfélaganna fyrir hönd þess.
Frá þessu er greint á heimasíðu MATVÍS þar sem fram kemur að starfsfólkið, sem málsóknin tók til, hafi átt milljónir króna inni hjá Flame.
„Málið á rætur að rekja til þess að sumarið 2022 fékk MATVÍS upplýsingar um að starfsmenn veitingastaðarins Flame hefðu ekki fengið launagreiðslur sem þeir áttu rétt á samkvæmt kjarasamningum og lögum. Í heimsókn vinnueftirlits MATVÍS var upplýst um umfangsmikil brot Flame gegn starfsfólki. Starfsfólk veitingastaðarins vann mjög mikið en greiðslur voru í engu samræmi við vinnuna. Ljóst er að vinnustaðaheimsókn MATVÍS gegndi lykilhlutverki við að upplýsa þau alvarlegu brot sem málið snýst um,“ segir í tilkynningu MATVÍS.
Forsaga málsins hafi verið sú að haustið 2022 greiddi Flame þremur starfsmönnum alls 10,5 milljónir króna fyrir tilstilli MATVÍS, vegna launa og annarra réttinda sem launþegarnir hefðu verið hlunnfarnir um.
„MATVÍS taldi þó að starfsfólkið ætti enn meira inni og studdi því starfsfólkið í dómsmáli gegn veitingastaðnum. Héraðsdómur féllst á málatilbúnað MATVÍS í heild sinni og samþykkti allar kröfur starfsmanna á hendur Flame.“
Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms beri Flame að greiða starfsfólkinu samtals þrjár og hálfa milljón króna, auk dráttarvaxta, til viðbótar við það sem Flame hafi áður greitt til leiðréttingar á vangoldnum launum. MATVÍS og kjaradeild Fagfélaganna hafi þannig stuðlað að því að þrír starfsmenn hafi fengið greiddar um 14 milljónir króna vegna vangreiddra launa og annarra réttinda.
Segir í tilkynningunni að héraðsdómur hafi hafnað öllum málatilbúnaði Flame en fulltrúar fyrirtækisins hafi haldið því fram að starfsmönnunum hafi verið óheimilt að láta af störfum þrátt fyrir umfangsmikil brot vinnuveitandans í þeirra garð.
„Á tímum þar sem verulega er vegið að réttindum hjá starfsfólki veitingastaða er mikilvægt að starfsfólk geti leitað til stéttarfélaga sem gætir réttinda þeirra. Þá er sérstaklega mikilvægt að starfsfólk geti treyst því að dómstólar standi vörð um grundvallarreglur á vinnumarkaði,“ segir svo og að lokum að MATVÍS fagni niðurstöðu héraðsdóms um réttindamál starfsfólksins.