Heilbrigðisstarfsmenn krupu í ráðuneytinu

Hópurinn kraup á gólfinu til að minna á þá heilbrigðisstarfsmenn …
Hópurinn kraup á gólfinu til að minna á þá heilbrigðisstarfsmenn sem hafa verið teknir til fanga eða hafa verið myrtir af Ísraelsher. Ljósmynd/Aðsend

Hópur fólks framdi gjörning í heilbrigðisráðuneytinu í dag og krafðist þess að Alma Möller heilbrigðisráðherra fordæmdi eyðileggingu heilbrigðiskerfisins í Palestínu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Hópurinn samanstóð af heilbrigðisstarfsfólki og óbreyttum borgurum í læknaklæðum og fór hópurinn fram á að heilbrigðisráðherra beitti sér með virkum hætti til þess að stöðva þjóðarmorð í Palestínu.

Lögregla kom á staðinn skömmu eftir að gjörningurinn hófst.
Lögregla kom á staðinn skömmu eftir að gjörningurinn hófst. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðisstarfsmenn teknir til fanga

Hópurinn klæddist fatnaði heilbrigðisstarfsfólks og kraup á gólfinu til að minna á þá heilbrigðisstarfsmenn sem teknir hafa verið til fanga af Ísraelsher, auk þeirra 1.050 heilbrigðisstarfsmanna sem hafa verið myrtir af Ísraelsher síðustu 14 mánuði.

Stríðshljóð voru spiluð úr hátölurum til þess að undirstrika að 654 árásir hafa verið gerðar á heilbrigðisstofnanir á Gasa síðan 7. október 2023, en einungis 16 af 36 spítölum á svæðinu eru að hluta til starfhæfir.

Hópurinn bað um að fá að tala við ráðherra eða ráðuneytisstjóra en í tilkynningunni kemur fram að enginn frá ráðuneytinu hafi gefið sig fram við hópinn fyrstu 30 mínúturnar.

Átta lögreglumenn hafi aftur á móti komið á staðinn stuttu eftir innkomu hópsins. Að lokum hafi ráðuneytisstjóri gefið sig fram við hópinn sem hafi þá getað komið erindi sínu til skila.

Hópurinn kom að lokum erindi sínu til skila til ráðuneytisstjóra.
Hópurinn kom að lokum erindi sínu til skila til ráðuneytisstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Yfirlýsing hópsins var svohljóðandi:

Gott fólk.

Við krefjumst þess að Alma Möller, í krafti embætti síns, fordæmi, ásamt Ríkisstjórn Íslands, gereyðileggingu allra heilbrigðisinnviða á Gaza. Jafnframt, að hún, ásamt ríkisstjórninni, krefjist þess þegar í stað á alþjóðavettvangi, að alþjóðalögum sé fylgt eftir í Palestínu.

Það að sjúkrabílar séu skotmörk, að sjúkrahús séu skotmörk, að heilbrigðisstarfsfólk séu skotmörk, er glæpur.

Við krefjumst þess að Alma Möller taki undir kröfu framkvæmdarstjóra Alþjóða Heilbrigðismálastofnunarinnar, dr. Ghebreyesus, og aðalritara Amnesty International, dr. Callamard,og Aðalritara Ammesty International um að Hussam Abu Safyia, læknir og forstjóri Kamal Adwan-sjúkrahússins, síðasta starfhæfa sjúkrahússins á Norður-Gaza, verði sleppt, tafarlaust!

Hlutverk heilbrigðisstarfsfólks um allan heim, er, að standa vörð um lífið.

Nú skiptir öllu máli, að fólk standi saman til að varðveita þetta grundvallarlögmál heilbrigðisstarfsins.

VIÐ VERÐUM AÐ LÁTA RÖDD OKKAR HEYRAST Á ALÞJÓÐAVETTVANGI. ÞAÐ ER OKKAR SKYLDA.

Reykjavík, 8.janúar 2025

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert