Líklega kvikusöfnun á miklu dýpi

Bera fór skyndilega á skjálftunum í Ljósufjallakerfinu árið 2021. Þeir …
Bera fór skyndilega á skjálftunum í Ljósufjallakerfinu árið 2021. Þeir hafa að mestu verið bundnir við afmarkað svæði við Grjótárvatn og Hítarvatn. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert lát er á skjálftavirkni við Grjótárvatn á Snæfellsnesi en virkni í Ljósufjallakerfinu hefur aukist mikið á síðustu mánuðum.

Á fimmta tímanum í nótt varð til að mynda skjálfti af stærðinni 2,9. Spurður hvað sé að valda virkninni segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, að langlíklegast sé að um kviku sé að ræða en það sé þó ekki eini möguleikinn.

„Við getum ekki útilokað að þetta sé út af einhverju öðru en ég held að flestir séu að komast á þá skoðun að um kvikusöfnun sé að ræða á miklu dýpi, 15-20 kílómetra dýpi,“ segir Benedikt við mbl.is. 

Grjótárvatn er innan eldstöðvakerfis sem kennt er við Ljósufjöll á Snæfellsnesi. Upptök skjálftanna eru þó talsvert frá Ljósufjöllum sjálfum. Síðasta eldgosið í Ljósufjallakerfinu var lítið gos átti sér stað á 10. öld og myndaði Rauðhálshraun.

Skoða að bæta fleiri mælingarstöðvum við

„Þetta er virkt eldstöðvarkerfi en við höfum aldrei séð það kræla á sér fyrr og erum að reyna að átta okkur á því,“ segir Benedikt.

Hann segir að verið sé að auka vöktun á svæðinu og búið sé að koma fyrir mælingarstöð í Hítardal og verið sé að skoða að bæta fleirum við.

Spurður hvort þessi atburðarás geti endað með eldgosi segir Benedikt:

„Það gæti alveg gerst en á hvaða tímaskala er engin leið að segja til um. Við gætum verið að tala um ár eða áratugi af einhverri virkni áður en það kemur eldgos. En svo getur þetta líka stoppað. Það eina sem við getum gert er að fylgjast vel með þróun mála.“

Bera fór á virkni í Ljósufjallakerfinu vorið 2021 og töldu skjálftar þess árs nokkra tugi. Á síðasta ári tók eldstöðin við sér af meiri krafti.

Eftir skjálftahrinu í ágúst í fyrra, þegar aldrei fleiri skjálftar höfðu mælst, ákvað Veðurstofa Íslands að koma fyrir GPS-mæli í Hítardal. Er það gert til að fylgjast með ef landris kann að verða samfara skjálftum, auk þess til að mæla betur skjálfta sem verða á svæðinu.

Bárðarbunga að safna í sig kviku

Benedikt Gunnar og kollegar hans eru einnig með augun á eldstöðinni í Bárðarbungu en jarðskjálfti af stærðinni 4,1 reið þar yfir í nótt. Það er stærsti skjálftinn sem mælst hefur þar á þessu ári.

„Það koma reglulega stórir skjálftar í Bárðarbungu en það er ljóst að hún er að safna í sig kviku og hefur verið að því síðan 2014 í Holuhraunsgosinu. Það hefur verið þensla þar síðan og við höfum fylgst vel með henni,“ segir hann.

Benedikt segir að kvikumagnið sé ekki orðið það sama eins og fór úr kerfinu 2014 en ekki sé hægt að segja til um hvað þurfi til að eldgos brjótist út. Hann segir að eldstöðin sé vel vöktuð en bætt hafi verið í vöktunarnetið eftir gosið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert