Þrír sóttu um starf forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands en umsóknarfrestur rann út 6. janúar.
Forseti félagsvísindasviðs er ráðinn af rektor háskólans til fimm ára og starfar í umboði hans.
Þau sem sóttu um starfið voru þau Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor og deildarforseti stjórnmálafræðideildar, Lars Gunnar Lundsten, fyrrverandi ráðgjafi á rannsóknarsviði Yrkehögskolan Arcada í Finnlandi, og Magnús Þór Torfason, prófessor og deildarforseti viðskiptafræðideildar.
Nýr forseti félagsvísindasviðs tekur til starfa 1. júlí en þá lætur Stefán Hrafn Jónsson, núverandi forseti sviðsins, af störfum.