Búast má við miklum leysingum um helgina

Aðfaranótt sunnudags gengur í suðaustan hvassviðri með rigningu.
Aðfaranótt sunnudags gengur í suðaustan hvassviðri með rigningu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðfaranótt sunnudags gengur í suðaustan hvassviðri með rigningu. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar en þar segir að mikil hálka geti myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó.

„Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og fylgjast með veðurspám,“ segir í athugasemdum veðurfræðings.

Spáin fyrir helgina er að það verði slydda eða rigning um vestanvert landið á laugardaginn með hita að allt að sex stigum en úrkomulítið og hiti um frostmark austan til.

Á sunnudaginn er útlit fyrir suðaustan 13-20 m/s og rigningu, einkum sunnan- og vestanlands. Það snýst síðan í hægari suðvestlæga átt og dregur úr vætu fyrir hádegi. Hitinn verður 2-9 stig en það kólnar í veðri um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert