Sóttvarnalæknir segir almenning ekki þurfa að óttast vegna fuglaflensusmits sem kom upp í 10 vikna kettlingi hér á landi, enda hafi afbrigðið aldrei greinst í mönnum.
Veiran getur þó aðlagast nýjum dýrategundum og stökkbreyst við ákveðnar aðstæður og er fuglaflensa talin líklegasta sviðsmynd fyrir næsta heimsfaraldur. Því er vel fylgst með þróun mála þegar smit koma upp.
Umræddur kettlingur drapst rétt fyrir jól eftir stutt veikindi, en við krufningu kom í ljós að hann var með skætt afbrigði af fuglaflensu (H5N5). Sama afbrigði og greinst hefur bæði í villtum fuglum og alifuglum hér á landi síðustu mánuði. Kettlingurinn er fyrsta heimilisdýrið á heimsvísu sem vitað er um að hafi greinst með afbrigðið, samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni.
Læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti drápust einnig eftir stutt veikindi, en þau voru ekki rannsökuð. Leiða má líkur að því að þau hafi einnig verið með fuglaflensu. Sóttvarnalæknir segir erfitt að segja til um það hvort smit hafi borist á milli kattanna eða hvort veiran hafi borist í þá með öðrum hætti, eins og til dæmis sýktum fuglum.
„Fuglaflensa er eitthvað sem við fylgjumst með og vöktum. Auðvitað er það sem snýr að fólki hjá okkur, en við vinnum með Matvælastofnun sem hafa með dýramálin að gera,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
„Þetta er líklegasta sviðsmyndin, hvaðan næsti heimsfaraldur kemur. Líklegast er að heimsfaraldur sé inflúensa, þó það hafi verið kórónuveira síðast. Það sem fólk hefur áhyggjur af er þessi fuglainflúensa, sem hefur verið í dreifingu, sem fór mikið á flug árið 2021, sem var aðallega H5N1.“
Hún segir mikið um fuglainflúensu í dýrum, þá sérstaklega fuglum auðvitað, og veiran geti smitast yfir í fólk þó það sé sjaldgæft.
Áhyggjurnar snúi aðallega að því hvernig veiran geti stökkbreyst í mönnum við ákveðnar aðstæður. Þar geti árleg inflúensa sem leggst á mannfólk haft sitt að segja. Sérstaklega inflúensa A sem stökkbreytist mjög auðveldlega.
„Ef fuglainflúensa fer í manneskju og sú manneskja fengi mannainflúensu á sama tíma þá geta þessar tvær veirur skipst á erfðaefni og þannig getur orðið til ný tegund veiru sem við hefðum þá ekki ónæmi fyrir. Af því við höfum aldrei séð hana áður,“ útskýrir Guðrún.
„Ef sú veira fengi svo þann eiginleika að geta smitast á milli manna, sem fuglaflensan hefur ekki verið verið að gera, þá getur byrjað faraldur, sem getur orðið heimsfaraldur því þá er ekkert ónæmi.“
Guðrún bendir á að H5N1 afbrigði fuglaflensunnar hafi síðasta árið ítrekað greinst í mjólkurkúm í Bandaríkjunum. Um 70 staðfest tilfelli hafi komið upp þar sem veiran hafi borist í fólk, en þau hafi flest verið mjög væg.
Kettir hafi einnig veikst en talið er að þeir hafi smitast með ógerilsneyddri mjólk.
Vitað sé um eitt tilfelli í Lousiana í Bandaríkjunum þar sem maður lést af völdum fuglaflensu H5N1. Sem var þó annað afbrigði af afbrigðinu, og ekki það sama og greinst hafði í kúnum. Sá hafði smitast af fuglum sem hann hélt í bakgarðinum hjá sér.
„Þetta sem var að greinast hér, H5N5, það hefur aldrei áður svo vitað sé greinst í manneskju. Þess vegna er ekki tilefni til sérstakra aðgerða eða viðbúnaðar hjá okkur sóttvarnalækni út af þessu, nema bara við erum að vakta þetta og erum í samskiptum við MAST.“
Sóttvarnarlæknir hefur þó mælt með því að að fólk sem var í umgengni við kettina sem veiktust, fari í sýnatöku ef það fær einkenni sýkingar.
Búið er að hafa samband við þá sem vitað að voru í kringum kettina og ætti því fólk að vera meðvitað um hvað það á að gera.
Aðspurð hvort það séu líkur á því að við séum að fara að fá fuglaflensufaraldur á næstu árum, svona í ljósi þess hve stutt er frá síðasta heimsfaraldri, segir Guðrún erfitt að spá fyrir um það. Það fari í raun allt eftir því hvernig aðstæður raðast upp.
„Það eru áhyggjur af því að með auknum tengingum í heiminum, fólk er meira á ferð og flugi og dýr og afurðir eru meira á ferð og flugi, að hugsanlega séu hlutir að fara hraðar á milli en áður fyrr.“