Maður leitaði til læknis vegna áverka eftir eggvopn í gærkvöld og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Lögreglan handtók mann sem grunaður er um líkamsárás, eignaspjöll og fjársvik. Hann var færður í fangageymslu.
Manni var vísað út úr fjölbýlishúsi eftir að hafa verið með ólæti og ógnandi hegðun og þá hafði lögreglan afskipti af manni í vímu að trufla starfsemi veitingastaðar.
Lögreglan handtók þrjá ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna og þá var tilkynnt um þrjú umferðaróhöpp í miðborginni.