Nýr borgarrekinn leikskóli mun rísa við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal og stefnt er á að hann verði tilbúinn til notkunar á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Samþykkt var í borgarráði í dag að ganga til viðræðna við fasteignafélagið Laka fasteignir ehf. um byggingu leikskólans. Reykjavíkurborg mun svo taka húsnæðið á leigu undir reksturinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Reykjavíkurborg auglýsti í október síðastliðnum eftir húsnæði og lóð fyrir leikskóla, 800 til 2000 fermetra húsnæði ásamt 1400 til 1800 fermetra aðliggjandi útileiksvæði.
Laki fasteignir ehf. festi nýlega kaup á Rafstöðvarvegi 7 með kaupum á félaginu Rafkletti ehf. en Reykjavíkurborg hefur leigt húsnæðið undanfarin ár undir starfsemi Hins hússins. Rafklettur ehf. er jafnframt eigandi að byggingarrétti upp á rúmlega 1000 fermetra við hliðina á Rafstöðvarvegi 7.
Í innsendu erindi Laka fasteigna til borgarinnar lýsti félagið sig reiðubúið að byggja leikskóla á þessari lóð, sem gæti verið tilbúinn til notkunar innan tólf mánaða frá undirritun leigusamnings. Gert er ráð fyrir að Hitt húsið verði áfram á sínum stað, að segir í tilkynningunni.
Til að tryggja afhendingartíma leikskólans verður notast við sömu byggingaraðferð og notuð var við stækkun Hótels Akureyrar á síðasta ári.
„Þá var gert samkomulag við Qmodular í Póllandi og voru starfsmenn Laka ráðgjafar í ferlinu. Hótelið var byggt á fimm mánuðum með stálgrindarfyrirkomulagi, siglt með það til Akureyrar og reist þar á fimm dögum. Lokafrágangur tók síðan tvo mánuði eftir að byggingin var reist.“
Tekið er fram að við Rafstöðvarveg sé mjög gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða sem og gangandi og hjólandi vegfarendur. Þá sé þar hæfilegur fjöldi bílastæða miðað við staðsetningu, fyrir starfsfólk og foreldra með börn í leikskóla.