Óskar Bergsson
„Í ljósi þessa alvarlega hneykslis innan borgarinnar finnst okkur ómaklegt af Dóru Björt Guðjónsdóttur að reyna ítrekað að skella skuldinni á Búseta vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og ekki rétt leið fyrir hana til að leysa sig undan ábyrgð.“
Þetta segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta um þau ummæli Dóru að það hafi verið fyrir tilstuðlan Búseta að byggingarreit hússins Árskógum 7 var breytt.
Jafnframt sagði Dóra Björt að Búseti hefði gefið í skyn að þeir hefðu ekki vitað að þarna risi hús og Búseti hefði átt frumkvæði að breytingum 2015.
„Auðvitað vissum við að við hlið okkar yrði reist hús en við vissum ekki að það yrði mannvirki sem hefði þessi áhrif. Öll fyrri áform gerðu ráð fyrir annars konar starfsemi og byggingum með miklu uppbroti með verslunum, ljósi og mannlífi,“ segir Bjarni.
Hann segir að enginn séruppdráttur hafi verið samþykktur af byggingarfulltrúa fyrr en haustið 2024 eftir að húsið var risið. Í samtali við reynda byggingaraðila kannist þeir ekki við að slíkt hafi tíðkast áður og það þekkist ekki að heilt hús rísi áður en nokkrir séruppdrættir eru stimplaðir.
„Nú heyrum við eftir borgarstjórnarfundinn að borgarstjóri og aðrir tali um að leita þurfi leiða til að laga bygginguna og virðast gleyma því að taka þarf afstöðu til þess að starfsemin sem þarna á að vera er ekki lögleg. Ef leyfi fyrir þessari starfsemi fæst ekki, er þetta þá ekki fallið um sjálft sig?“ spyr Bjarni Þór Þórólfsson.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag