Nemendur á unglingastigi í Varmahlíðarskóla í Skagafirði auglýsa nú eftir fötum frá tímabilinu 2000 til 2010, sem nota á í söngleik sem verið er að setja upp.
Fyrst var farið í að leita í skápum á heimilum nemenda og starfsfólks skólans, en þar sem það skilaði ekki nógu góðum árangri var brugðið á það ráð að setja auglýsingu á Facebook.
Nýr söngleikur er settur upp á hverju ári í tengslum við árshátíð á unglingastigi skólans og í ár var það söngleikurinn Frelsi sem varð fyrir valinu, eftir Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson.
Fatatískuþema söngleikjanna er ekkert alltaf í takt við sögusviðið, að sögn Írisar Olgu Lúðvíksdóttur, leikstjóra sýningarinnar, en í ár varð fyrsti áratugur 21. aldarinnar fyrir valinu.
Frelsi fjallar um stúlku sem kemur ný í skólann, en hún á ekki síma og er fyrir vikið tekin fyrir af vinsælu krökkunum í bekknum.
Síðan birtist ungur maður sem býður henni gull og græna skóga, vinsældir og síma, skilur eftir hjá henni bók sem hún vinir hennar garfa í og tekst að vekja upp kölska sem er kominn til að hefna sín á síðasta afkomenda Sæmundar fróða, sem er umrædd stúlka.
„Þetta er svolítið ruglandi fyrir áhorfendur, en ef þetta ruglar einhvern þá verður bara að hafa það,“ segir Íris kímin, og vísar þar til söguþráðarins og fatatískunnar.
Krökkunum sem koma að sýningunni finnst fataþemað spennandi og hafa verið að skoða myndir og kynna sér tískuna frá þessu tímabili í valáfanga í skólanum.
„Þau hafa verið að skoða myndir, vinna í förðun og hári og stúdera það. Maður sér núna hvað þetta er öðruvísi en þetta var í dag.“
Þrátt fyrir að hafa birt auglýsingu eru þau enn ekki komin með nógu mikið af fötum fyrir sýninguna, enda kannski margir búnir að losa sig við fatnað frá þessum árum. En vanti eitthvað upp á geta þau alltaf leitað til Leikfélags Sauðárkróks.
Íris segir þau hafa nauman tíma til að undirbúa sýninguna og í raun standi æfingar aðeins yfir í tvær vikur, eða frá upphafi árs og fram að sýningu.
„Það eru allir að hjálpast að. Nemendur og starfsfólk hjálpast að búa til sviðsmyndir, leikmuni og safna saman búningum. Þetta er svona akkorðsvinna sem við hellum okkur í. Við vorum eitthvað byrjuð fyrir áramót en þetta fer ekkert af stað af krafti fyrr en við byrjum eftir áramótin.“