Valbjörg Elsa Haraldsdóttir, hárgreiðslumeistari og frumkvöðull, lést á Landspítalanum 7. janúar sl., 76 ára að aldri.
Elsa fæddist 27. mars 1948 á Ísafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Haraldur Valdimarsson verkstjóri, f. 26.6.1916, d. 15.11.1965, og Brynhildur Ingibjörg Jónasdóttir, ljósmóðir, f. 8.5.1920, d. 27.5.1993. Systur Elsu voru Þórunn, f. 8.3.1946, d. 1.12.2024, og Jóna Vigdís, f. 10.3.1951, d. 1.8.2002. Hálfbróðir Elsu samfeðra var Árni Sigursteinn, f. 29.6.1944, d. 9.5.2014.
Elsa ólst upp á Ísafirði og lauk þar landsprófi. Á sínum yngri árum tók Elsa þátt í starfi skátanna. Hún flutti til Reykjavíkur í kjölfar andláts föður hennar og gerðist nemi hjá Helgu Jóakimsdóttur, hárgreiðslumeistara, árið 1966. Elsa lauk sveinsprófi í hárgreiðslu árið 1968 og fékk meistarabréf árið 1971.
Að loknu sveinsprófi flutti Elsa til Vínaborgar þar sem hún starfaði á hársnyrtistofu í tvö ár.
Elsa stofnaði hársnyrtistofuna Salon VEH árið 1971 og rak hana til ársins 2024. Á tímabili var hún með þrjár hárgreiðslustofur í rekstri, þ.e. í Glæsibæ, Húsi verslunarinnar og á Laugavegi. Elsa stofnaði einnig og rak heildverslunina Hár ehf. sem hefur einkum sinnt innflutningi hárvara, s.s. Pivot Point kennsluefni fyrir hársnyrtifagið, REDKEN, Color WOW o.fl. Er heildsalan enn í rekstri.
Á starfstíma sínum tók Elsa þátt í fjölmörgum hárgreiðslukeppnum, sýningum og kennslu bæði innanlands og erlendis auk alþjóðlegrar samvinnu. Elsa vann til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Meðal annars vann hún til verðlauna á Íslandsmótum 1973, 1975 og 1977 og var síðar dómari í Norðurlandakeppnum, Evrópu- og heimsmeistarakeppnum. Á ferli sínum tók Elsa þátt í hárgreiðslusýningum út um allan heim og má nefna sýningar í Rio de Janeiro, Paris, Orlando, New York, Seattle og Suður-Afríku. Þá tók hún þátt í alþjóðlegum sýningum fyrir Redken, Intercoiffure, Pivot Point, International Beauty Show o.fl.
Þá stofnaði Elsa, ásamt öðrum, Íslandsdeild Intercoiffure árið 1973 og var formaður félagsins í 12 ár. Elsa sat í framkvæmdastjórn alþjóðasamtaka Intercoiffure og gegndi m.a. stöðu listráðunauts (Artistic Coordinator Mondial). Tók hún m.a. þátt í því að hanna vor- og haustlínur Intercoffure sem kynntar voru í París tvisvar á ári. Auk þess var Elsa meðlimur í Haute Coffure Francaise til fjölda ára. Elsa hlaut Commandor-viðurkenningu frá Intercoiffure og var heiðruð í Hall of Fame hjá Pivot Point International.
Á starfstíma sínum lagði Elsa mikla áherslu á menntun og útskrifaði hún yfir 100 nemendur í hársnyrtiiðn og var hún ásamt öðrum leiðandi á sínu sviði.
Á árinu 2002 hlaut Elsa viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) fyrir að vera konum í atvinnurekstri sérstök hvatning og fyrirmynd.
Þá sat Elsa í stjórn Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur í áratug, þar af var hún formaður árin 2013-2019 fyrst kvenna. Elsa var útnefnd Heiðursiðnaðarmaður 2023 á Nýsveinahátíðinni það ár, en árlega heiðrar félagið iðnaðarmann eða -konu sem talin er hafa skarað fram úr á sínu sviði og hefur stuðlað að framgangi síns fags og menntunar.
Árið 1971 giftist Elsa Sigurði K. Guðjónssyni, klæðskera, f. 15.6.1947, d. 4.3.2024. Þau skildu. Sonur Elsu og Sigurðar er Jóhann Tómas, lögmaður, f. 27.7.1974. Maki Jóhanns er Árný Jónína Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Elsa Lovísa og Ásta Rakel.
Útför Elsu fer fram frá Dómkirkjunni föstudaginn 24. janúar nk., klukkan 13.