Logi Már Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun minnisblað um stuðning við einkarekna fjölmiðla.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Logi hafi upplýst ríkisstjórnina um áform sín um að leggja fram frumvarp um áframhaldandi stuðning til einkarekinna fjölmiðla með það að markmiði að viðhalda fyrirsjáanleika í rekstri einkarekinna fjölmiðla og tryggja að þeir geti sinnt lýðræðishlutverki sínu.
Frumvarpið mun taka óbreytt upp þau ákvæði sem féllu úr gildi um áramótin og er ráðgert að gildistími frumvarpsins verði eitt ár og er það að fullu fjármagnað í fjárlögum þessa árs.
Fram kemur að vinna sé hafin við endurskoðun á kerfinu og taki hún meðal annars tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið og af vinnu við fjölmiðlastefnu og einstakra þátta hennar en stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu á vorþingi sem mælir fyrir um fjölmiðlastefnu.