Núverandi staða óboðleg íbúum og gestum

Horft yfir Hellu. Sú staða hefur ítrekað komið upp að …
Horft yfir Hellu. Sú staða hefur ítrekað komið upp að enginn læknir er á vakt á stóru svæði á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveitarfélögin í Rangárvallarsýslu krefjast lausna við læknaskorti og segja núverandi stöðu og óvissu óboðlega íbúum sýslunnar og gestum hennar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélögunum.

Málefni heilsugæslu Rangárþings hafa verið til umræðu undanfarin misseri vegna vanda við að fastráða lækna í héraðinu. 

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) hefur sagt við mbl.is að allt sé gert til að reyna að laða að lækna, en síðustu mánuði hafi þau þurft að reiða sig á verktakalækna. Sem sé áhyggjuefni.

Læknisþjónusta tryggð út febrúar

Í tilkynningunni segir að sú staða hafi reglulega komið upp að enginn læknir sé á vakt á stóru svæði á Suðurlandi, sem hafi skapað aukið álag á annað heilbrigðisstarfsfólk og óöryggi fyrir íbúa og mikinn fjölda ferðamanna sem fer um svæðið.

Fulltrúar Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Ásahrepps funduðu með framkvæmdastjóra hjúkrunar og heilsugæslu HSU í byrjun vikunnar til að fara yfir málin og leita skýringa og lausna á stöðunni. 

Á þeim fundi kom meðal annars fram að grunnlæknisþjónusta í sýslunni væri tryggð út febrúar 2025 og að sá tími yrði nýttur til þess að auglýsa og ráða lækna í fastar stöður. 

„Fram kom að til skoðunar er hjá heilbrigðisráðuneytinu einhvers konar ívilnanir til að laða að heilbrigðisstarfsfólk út á land og hvetja sveitarstjórnir svæðisins til að því máli verði hraðað eins og kostur er. Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu leggja áherslu á að þau séu hér eftir sem hingað til tilbúin að liðka til fyrir ráðningarferlinu eins og þeim er heimilt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert