Óásættanlega langur tími

Pétur Georg Markan bæjarstjóri segir margar leiðir í boði til …
Pétur Georg Markan bæjarstjóri segir margar leiðir í boði til að tryggja afhendingaröryggi heits vatns í Hveragerði enda sé svæðið orkuríkt. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það gengur náttúrulega ekki að ekki sé hægt að tryggja afhendingaröryggi á heitu vatni,“ segir Pétur Georg Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.

Dæla í borholu hitaveitu í Hveragerði hefur verið biluð frá 1. desember með skertri afhendingargetu sem veldur því að mörg heimili fá ekki jafn heitt vatn og venjulega. Tilkynning frá Veitum vegna bilunarinnar gaf í skyn að viðgerð tæki ekki jafnlangan tíma og raunin hefur orðið.

Hefur boðað Veitur á sinn fund

„Þetta hefur hitt okkur mjög illa á nýju ári en það er búið að vera mjög kalt. Auðvitað getur fólk tekið á sig skerðingar í einhvern tíma en þetta er orðið mjög langur tími og óásættanlega langur,“ segir Pétur sem vonast til að farsæl lausn náist sem fyrst.

Bæjarstjórinn hefur boðað Veitur á sinn fund í næstu viku þar sem staðan verður rædd. „Við ætlum að sjá hvaða úrbótaáætlun Veitur hafa í farteskinu.“

Pétur Georg Markan bæjarstjóri.
Pétur Georg Markan bæjarstjóri. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Verða að geta treyst á afhendingaröryggi

Pétur segir almenning og notandann verða að geta treyst á að afhendingaröryggi sé tryggt. Íbúar eru ósáttir við að fá ekki afslátt af hitaveitureikningum á meðan ástandið varir. Segir Pétur eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvers vegna það borgi fullt verð fyrir skerta þjónustu.

Ef það sé of dýrt að vera með varadælu séu margar aðrar leiðir í boði enda svæðið orkuríkt. 

„Nú ríður á að setjast niður og ég geri ráð fyrir að Veitur séu með eitthvað umbótaplan sem þeir ætla að segja okkur frá. Ég trúi að í framtíðinni verði þetta í betra horfi og það er það sem við gerum kröfur um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert