„Smálægð milli Íslands og Grænlands beinir fremur hægri suðlægri átt með smá skúrum eða slydduéljum að landinu. Helst þó úrkomulaust og bjart yfir norðausturhluta landsins,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Þar segir að langt suður í hafi sé vaxandi lægð sem hreyfist norður á bóginn. Úrkomusvæði hennar nálgist óðum.
Því muni ganga í allhvassa eða hvassa suðaustanátt. Henni fylgi rigning og hækkandi hiti sunnan- og vestanlands í nótt.
Gular veðurviðvaranir taka í gildi klukkan 2 í nótt.
Á hádegi á morgun snýst í hægari suðvestlæga átt og styttir upp. Fer þá að hvessa og rigna norðaustan til. Annað kvöld lægir, „rofar til og kólnar“.
„Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og því mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón,“ varar Veðurstofan við.
Lægðin verður komin langt norður í Dumbshaf á mánudagsmorgun en nýtt úrkomusvæði fer yfir landið og hlýnar þá aftur.