Stuðmaðurinn Valgeir Guðjónsson og rithöfundurinn Ásta Kristrún Ragnarsdóttir afhentu forystukonum ríkisstjórnarinnar ljóðagjafir úr smiðju Valgeirs í gær. Inga Sæland formaður Flokks fólksins fékk einnig innrammað textabrot úr Sigurjóni Digra, sem hún syngur óspart.
Í fréttatilkynningu frá Valgeiri og Ástu segir að Valkyrjurnar, eins og þær eru kallaðar, hafi farið á fund þeirra snemma í gær. Erindið var að færa Kristrúnu Frostadóttur, Ingu Sæland og Þorgerði Katrínu textabrot úr ljóðasafni Valgeirs.
„Eftir að hafa fylgst með þessum kvenstólpum undanfarnar vikur hafa tvö ljóð Valgeirs poppað endurtekið upp í huga hans,“ segir í tilkynningunni.
Ljóðin eru „Kveiktu á ljósi“ annars vegar og „Biðjum um frið“ hins vegar. Valgeir og Ásta segja að bæði ljóðin hafi boðskap til að bera sem mátist við ásýnd Valkyrjanna.
Boðskapur fyrra ljóðsins „Kveiktu á ljósi“ felur í sér ákall til mannfólksins að kveikja á ljósinu innra með okkur og veita því áfram til annarra.
„Boðskapurinn á bæði við um hvernig þær þrjár vinna saman og án efa almennt með öðrum. Að auki höfum við skynjað svo sterkt hvernig skilaboð þeirra um betri tíð hefur varpað ljósi inn í þjóðarsálina. Með ljóði sínu vill Valgeir beina sjónum okkar að því hvernig við getum öll virkjað ljósið innra með okkur veitt ljósinu til annarra hvern dag; eitt lítið bros til náungans getur gert gæfumuninn,“ segir í tilkynningunni.
Hitt ljóðið „Biðjum um frið“ á að lýsa þrá okkar um frið í heiminum, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Í boðskapnum felst að þótt okkur finnist við magnlítil gagnvart hörmungum heimsins getum við lagt okkur fram með því að beina hugarorkunni og óskinni um frið á jörðu áfram gegnum himingeiminn. Svo merkilega vildi til að Þorgerður Katrín kom svo til beint á ríkisstjórnarfund frá hinni stríðshrjáðu Úkraínu og var fljót að grípa niður í textann af sinu alkunna innsæi.“
En það var líka önnur viðeigandi gjöf sem kom upp úr hatti Valgeirs og hana fékk auk ljóðagjafanna Inga Sæland.
Það var ekki annað hægt en að færa henni textabrot úr laginu „Við erum komin til að sjá og sigra, Sigurjón Digra“.
„Sú gjöf féll nú heldur betur í kramið hjá okkar tónfúsu Ingu Sæland og henni þótti nú ekki verra að fá textann afhentan úr hendi höfundar lags og texta,“ segir í tilkynningunni.
Eins og frægt er orðið hefur Inga Sæland tileinkað sér viðlag Stuðmannalagsins.
„Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra,“ lýsti Inga yfir þegar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna þriggja hófust.