Stjórn stéttarfélagsins Virðingar segir félagið hafa verið stofnað af starfsmönnum veitingahúsa. Þá veiti kjarasamningur félagsins við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) í sumum atriðum betri kjör en kjarasamningur Eflingar.
Efling hefur háð ákafa herferð gegn Virðingu. Efling telur að félagið hafi verið stofnað af SVEIT til þess að geta samið um lakari kjör heldur en samningur Eflingar geri ráð fyrir.
„Virðing stéttarfélag er stofnað af starfsmönnum í veitingahúsum. Þeir félagsmenn Virðingar sem stofnuðu félagið höfðu það frelsi að mega stofna sitt eigið stéttarfélag. Stjórn Eflingar og formanni þess kemur það þess vegna ekkert við þó þetta fólk vilji frekar stofna sitt eigið stéttarfélag og vilji ekki vera í Eflingu. Þá hefur Efling heldur engan einkarétt á því að semja við vinnuveitendur eða fyrir hönd þeirra sem hjá þeim vinna,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Virðingar.
Segir stjórn Virðingar Eflingu ekki hafa viljað semja við SVEIT.
„Efling hefur þegar sýnt það í verki að það vill ekki semja við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Sá kjarasamningur sem Virðing og veitingamenn hafa nú undirritað er gerður af fúsum og frjálsum vilja undir formerkjum félagafrelsis sem varið er af íslensku stjórnarskránni. Í sumum atriðum veitir hann betri kjör en kjarasamningur Eflingar í öðrum lakari.“
Þá frábiður stjórn Virðingar sér að vera bendluð við lögbrot og ítrekar að félagsmenn hafi og eigi þann rétt að stofna sitt eigið stéttarfélag og gera þá samninga sem þeir eru tilbúnir að vinna eftir.