Skjálftinn sem reið yfir í Ljósufjallakerfinu klukkan 17.19 síðdegis reyndist að öllum líkindum hafa verið 2,9 að stærð.
Frá þessu segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.
Erfitt reyndist að staðfesta nákvæma mælingu á skjálftanum.
Segir hún að íbúar á Mýrum hafi haft samband við Veðurstofuna og látið vita að þeir hafi orðið skjálftans varir. Engar slíkar tilkynningar hafa borist frá Akranesi eða Borgarnesi.
Skjálftinn, sem átti upptök sín skammt austur af Grjótárvatni í fjöllunum ofan við Mýrar í Borgarfirði, er einn sá stærsti frá upphafi mælinga á svæðinu.
Stærsti skjálftinn fram til þessa var 3,2 að stærð og reið yfir að kvöldi 18. desember.