Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins styður Sigurð Inga Jóhannsson til áframhaldandi formennsku í flokknum. Hún segir hann einan ekki bera ábyrgð á niðurstöðum kosninganna.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í Dagmálum kurr í flokksmönnum eftir rýr kosningaúrslit. Hún játaði að brotthvarf Bjarna Benediktssonar úr stjórnmálum hafi aukið þrýsting á Sigurð Inga og sagði kallað eftir því að flokksþingi yrði flýtt.
Sigurður Ingi hefur sagt að hann vilji leiða flokkinn áfram.
Landsstjórn Framsóknar mun funda í lok mánaðar. Í kjölfarið mun landsstjórn boða miðstjórn saman. Miðstjórn fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og getur tekið ákvörðun um að flýta flokksþingi. Á heimasíðu Framsóknar segir að um 200 manns sitji í miðstjórn.
Kjördæmisráð framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmunum samþykkti á fimmtudag að óska miðstjórnarfundar svo flýta megi flokksþing. Samkvæmt heimildum mbl.is átti miðstjórn að funda í nóvember en fundi var frestað vegna kosninganna og var því á áætlun að boða fund á nýju ári. Að öllu jafna fundar miðstjórn tvisvar á ári.
Flokksþing Framsóknar var haldið í apríl í fyrra. Almennt er það haldið annað hvert ár. Flokksþing hefur æðsta vald í málefnum Framsóknarflokksins. Þar er æðsta stjórn flokksins kosin þ.e. formaður, varaformaður og ritari.
Ingibjörg á sæti í bæði landsstjórn og miðstjórn. Hún segir mikilvægt fyrir fólkið í flokknum að hittast og ræða stöðuna og skrefin fram á við. Spurð hvort hún telji rétt að flýta flokksþingi segir Ingibjörg:
„Það fer eftir umræðu flokksmanna á miðstjórnarfundi. Hvaða tímapunktur er réttur fyrir það skal ég ekki segja.“
Ingibjörg telur ekki að Sigurður Ingi þurfi að axla ábyrgð á kosningaósigrinum. Hún styður hann heilshugar til áframhaldandi formennsku og telur rétt að gefa honum tíma til að ræða stöðuna við flokksmenn.
„Formaðurinn tekur þá ákvörðun í þessari kosningabaráttu að setja sig í annað sætið með það að markmiði að koma tveimur inn í sínu kjördæmi því við vissum að það væri á brattan að sækja. Hann komst inn með annan mann. Það er vissulega áhyggjuefni að við komum ekki inn þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvestur. Við sjáum á eftir góðu fólki. Ég held að það séu margir þættir sem koma þarna inn, ekki einhver einn. Ég styð formanninn okkar heilshugar,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Hann er einn reynslumesti einstaklingurinn á þinginu í dag. Hann hefur verið mjög skýr með það að hann vilji halda áfram og hann ætlar að fara nú og hitta fólk í flokknum og tala við það. Mér finnst rétt að gefa honum þann tíma og styðja hann í því.“