Bærinn bendir á Póstinn

Utankjörfundaratkvæði sem bárust Kópavogsbæ degi fyrir Alþingiskosningarnar 2024 rötuðu ekki …
Utankjörfundaratkvæði sem bárust Kópavogsbæ degi fyrir Alþingiskosningarnar 2024 rötuðu ekki í kjörkassa fyrir talningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarritari Kópavogsbæjar segir að starfsmanni Póstsins beri að gefa sig fram við starfsmann þjónustuvers Kópavogsbæjar, sem móttekur póstsendingu. Gefur hann í skyn að verklagi hafi ekki verið fylgt þegar starfsmaður Póstsins afhenti utankjörfundaratkvæði  í aðdraganda kosninga.

Pálmi Þór Másson bæjarritari segir utankjörfundaratkvæði, sem berast með póstinum í aðdraganda kosninga, jafnan sett í sérstakan innsiglaðan kjörkassa, sem staðsettur er í þjónustuveri Kópavogsbæjar. Kjörkassinn sé síðan afhentur yfirkjörstjórn Kópavogsbæjar en Pálmi Þór er einnig titlaður starfsmaður kjörstjórnar Kópavogs á vef bæjarins.

Ekki hægt að skera úr um fjölda atkvæða

Póstsending með utankjörfundaratkvæðum barst bæjarskrifstofum Kópavogsbæjar föstudaginn 29. nóvember, einum degi fyrir kjördag, en starfsfólk bæjarins varð ekki vart við sendinguna fyrr en mánudaginn 2. desember, tveimur dögum eftir kjördag.

Í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is segir Pálmi Þór 12-15 atkvæði hafa borist fyrir kosningar en ekki sé hægt að skera úr um endanlegan fjölda þar sem póstsending föstudags hafi blandast við sendingu mánudags þegar starfsfólk áttaði sig.

„Samkvæmt verklagi ber starfsmanni Póstsins að bera sig upp við starfsmann í þjónustuveri sem móttekur þá viðkomandi póstsendingu. Í þessu tilviki urðu starfsmenn þjónustuvers Kópavogsbæjar þess ekki áskynja þegar starfsmaður póstsins kom með nýja póstsendingu og tók útpóstinn,“ sem segir í svarinu.

Landskjörstjórn gefur upp annan fjölda

Landskjörstjórn hefur hins vegar staðfest við mbl.is að bréfin sem bárust Kópavogsbæ með utankjörfundaratkvæðum degi fyrir kosningar en skiluðu sér ekki til talningar hafi verið 25 talsins.

Landskjörstjórn stefnir að því að skila inn áliti sínu um framkvæmd alþingiskosninganna í Suðvesturkjördæmi um miðja þessa viku, en framkvæmd kosninganna var kærð af fulltrúum Pírata og Framsóknarflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert