Gögnin í höndum ákæruvaldsins um mennina sem höfðu samræði við andlega fatlaða konu án hennar samþykkis þóttu ekki líkleg til sakfellingar og voru þeir því ekki ákærðir.
Þetta segir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
Samkvæmt dómi sem féll fyrir helgi játuðu þrír menn að hafa tekið þátt í kynferðismökum með konunni.
Í matsgerð sálfræðings segir að konan geti við stutta viðkynningu leynt takmörkunum sínum en aftur á móti ættu öllum að vera ljósar þær takmarkanir þegar farið sé að kynnast henni.
Þá sé allur félagslegur skilningur hennar verulega skertur og öll flókin samskipti reynist henni erfið. Skilningur hennar á ástarsamböndum sé takmarkaður.
„[Þ]að er ljóst að miðað við sögu [brotaþola], þroskastöðu og miðað við upplýsingar frá þeim aðilum sem tengjast henni að allur hennar félagsskilningur er skertur sem og geta hennar til að setja mörk varðandi óviðeigandi samskipti,“ segir í matsgerð sálfræðings.
Spurður hvers vegna mennirnir hafi ekki verið ákærðir vísar Karl Ingi í 145. grein laga um meðferð sakamála sem kveður á um að ákærandi skuli ekki höfða mál á hendur sakborningi telji hann það ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis.
„Þátttaka þessara manna var rannsökuð af lögreglu og þeir fengu stöðu sakbornings. Málið kemur til okkar og það var mat ákæruvaldsins að gögnin væru þannig vaxin að það væri ekki líklegt að það næðist fram sakfelling fyrir dómi. Þegar sú staða er uppi er okkur ekki heimilt að ákæra. Við megum ekki ákæra nema við teljum okkur ná sakfellingu. Þar af leiðandi var málið gegn þeim fellt niður,“ segir Karl Ingi í samtali við mbl.is.
Hann kvaðst ekki vilja tjá sig frekar um málið.
Dómur sem féll fyrir helgi yfir Sigurjóni Ólafssyni verslunarstjóra hefur vakið mikinn óhug.
Hann var dæmdur í átta ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn andlega fatlaðri konu sem var undirmaður hans, andlega fötluðum syni hennar og kærustu hans sem er metin seinfær.
Sigurjón hitti konuna reglulega og stundaði kynlíf með henni á heimili hennar. Í matsskýrslu sálfræðings segir að valdaójafnvægi hafi verið í sambandinu. Hún hafi haft „einfaldan og nánast barnalegan skilning á sambandi sínu“ við Sigurjón og talið þau vera kærustupar. Meira og minna öll samskipti þeirra snerust þó um kynlíf.
Þá var Sigurjón meðal annars dæmdur fyrir að láta konuna hafa samræði við þrjá menn á tímabilinu 2016 til 2019.
Í ákærunni kemur fram að mennirnir hafi verið fleiri. Segir þar að Sigurjón hafi endurtekið boðið öðrum karlmönnum að taka þátt í kynlífi þeirra í gegnum stefnumótavefsíðu og að það hafi jafnan verið án þess að láta hana vita áður og án þess að hún í raun vildi það.
Þá hafi hann stundum sent ókunnuga menn heim til hennar án hennar samþykkis, sem hún var ósátt við.
Við rannsókn málsins fékk lögregla gögn um Sigurjón frá fyrirtækinu sem rekur stefnumótavefsíðuna. Samkvæmt gögnum málsins var Sigurjón í samskiptum af kynferðislegum toga við nokkurn fjölda annarra einstaklinga þar.
Benda gögnin til þess að hann hafi að einhverju marki hitt einstaklinga í kynferðislegum tilgangi þar sem brotaþoli kom við sögu.
Lögreglu reyndist út frá gögnunum unnt að upplýsa um deili á fjórum af fimm grunuðum einstaklingum sem taldir voru hafa hitt Sigurjón og brotaþola í fyrrgreindu samhengi.
Rannsókn lögreglu beindist m.a. að þessum notendum og voru þeir grunaðir um brot gegn brotaþola út frá því sem áður greinir um ætluð kynferðismök við hana með aðkomu Sigurjóns.
Eins og fyrr segir hafði lögregla upplýsingar um deili á fjórum af fimm grunuðum sem Sigurjón hafði verið í samskiptum við í gegnum stefnumótavefsíðuna. Eru þeir nefndir E, F, G og H í dómsskjölunum.
Í dómnum kemur fram að þrír menn af fjórum hafi játað að hafa hitt Sigurjón og brotaþola og tekið þátt í kynferðismökum með þeim.
Maðurinn sem kallaður er E í dómsskjölunum kveðst hafa hitt Sigurjón og brotaþola í tví- eða þrígang þar sem kynferðismök áttu sér stað á heimili brotaþola. Hann hafi talið að brotaþoli væri ástkona Sigurjóns utan hjónabands. Sagði hann konuna hafa virst vera samþykk því sem fór fram.
Samskipti E við brotaþola eru sögð hafa verið takmörkuð og honum ekki verið kunnugt um né hann gert sér grein fyrir því að hún væri andlega fötluð.
Í dómnum kemur einnig fram að í skilaboðum milli Sigurjóns og E frá því um mitt ár 2016 og fram í nóvember sama ár hafi verið margvísleg skeyti um gróft og óhefðbundið kynlíf.
Í skilaboðasendingu um brotaþola, í janúar 2017, frá Sigurjóni til E kom eftirfarandi fram:
„Við getum ákveðið þetta hún [hlýðir]. Hún er 43 ára[...] Svo sagði ég henni
ef þig langaði að taka hana einn einhvern tímann þá yrði hún að gera það. Hún á bara að [hlýða].[...] Já ég [ræð]henni og hvað hún gerir.[...].“
Maðurinn sem kallaður er F í dómsskjölunum kannaðist við að hafa verið í samskiptum við Sigurjón í gegnum vefsíðuna. Hann sagðist þó ekki hafa hitt Sigurjón og brotaþola.
Maðurinn sem kallaður er G í dómsskjölunum kannast við að hafa hitt Sigurjón og brotaþola í eitt skipti. Kynferðismök áttu sér stað en vöruðu ekki lengi, þar sem G reyndist vera orðinn afhuga og vildi hætta þátttöku.
Segir hann þau bæði hafa virst vera samþykk og tekið þátt og að ekkert hafi bent til hins gagnstæða.
Í skilaboðum frá Sigurjóni til G, sem fjalla um brotaþola, í febrúar 2019, segir: „Hún [hlýðir]bara og gerir eins og ég segi [...].“
Maðurinn sem kallaður er H í dómsskjölunum kannast við að hafa hitt Sigurjón og brotaþola í tví- eða þrígang þar sem kynferðismök áttu sér stað.
Er H sagður hafa talið framan af að Sigurjón og konan hefðu verið í nánu sambandi sem par. Síðar áttaði hann sig á að svo var ekki. Undir lokin vildi hann ekki frekari samskipti við þau þar sem Sigurjón vildi fá fleiri til að taka þátt, auk annarra hugmynda sem H leist ekki á.
H kveðst hafa staðið í þeirri trú að konan væri samþykk kynferðismökunum en hún hafði þó ekkert tjáð sig munnlega.
Í skilaboðum frá Sigurjóni til H í október 2019 um brotaþola segir eftirfarandi:
„Við hittumst hjá henni og hún byrjar að totta okkur og svo skiptumst við á að [ríða] henni. Fyllum hana [og] förum [...] Förum bara strax úr öllu og hún tottar okkur og svo skiptumst á að [ríða] henni. Fyllum hana og förum þegar erum búnir.“
Í dómnum kemur fram að fleiri skeyti hafi borist frá Sigurjóni af svipuðum toga sem ekki sé þörf á að rekja frekar.
„Heildarmynd og einstakir hlutar samskiptagagnanna draga fyrst og fremst fram þá ásýnd af ákærða að hann hafi á löngu tímabili verið að leita sér að grófu kynlífi með öðrum. Jafnframt draga samskiptagögnin fyrst og fremst fram þá mynd af ákærða að það var hann sem stjórnaði því sem gerðist og leiddi samskiptin áfram en ekki [brotaþola]. Hún hafi því í raun engu ráðið um hvað myndi gerast og ekkert samþykki af hennar hálfu hafi verið fyrir hendi,“ segir í dómnum.
Mennirnir sem ekki eru nafngreindir í dómnum voru með réttarstöðu sakbornings en að sögn Karls Inga þótti ákæruvaldinu málið gegn þeim ekki líklegt til sakfellingar. Voru þeir því aldrei ákærðir.