„Maður bara tjúllast af pirringi“

Leikstjórarnir Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson kalla sig Markel bræður og hafa framleitt og leikstýrt nokkrum af vinsælustu gamanmyndum á Íslandi, síðustu misseri. Þeir segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum við KMÍ eða Kvikmyndamiðstöð Íslands sem úthlutar styrkjum til kvikmyndagerðar. Þeir Markel bræður hafa leikstýrt og framleitt þrjár myndir og komið að framleiðslu á þremur öðrum.

Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin er án efa þeirra þekktasta verk en KMÍ hafnaði styrk í þá mynd á þeim forsendum að hún væri ekki fyndin. Sama gilti með framhaldsmyndina Allra síðasta veiðiferðin. Þá kom strax nei frá KMÍ en að lokum náðu þeir að kría út lágmarksstyrk. Þegar þeir sóttu um styrk fyrir myndina sem nú er í kvikmyndahúsum, Guðaveigar fengu þeir strax neitun.

„Smætta og jaðarsetja kvenfólk“

Eins og áður var bent að myndin væri ekki fyndin að mati ráðgjafa sem fór yfir handritið. En svo fylgdi með athugasemd, segir Þorkell. „Enn eina ferðina eru þeir félagar að smætta og jaðarsetja kvenfólk. Alltaf þegar maður fær svona umsagnir þá er maður bara. Ha? Allar okkar kvenpersónur er handhafar, veraldlegs, andlegs og guðlegs valds. Þetta eru biskupar, lögreglustjórar. Þetta eru allt boss women. Það sem er kannski sammerkt með okkar myndum er að karlarnir sem eru, jú jú það má hlæja að þeim af því að þeir eru svo vitlausir,“ upplýsir Þorkell Harðarson í Dagmálum í dag. 

Gagnrýnt að hundurinn var karlkyns

Hann hefur rætt við fleiri í kvikmyndageiranum og falast eftir reynslusögum varðandi samskipti við KMÍ. Hann nefnir dæmi um kollega sem er karlmaður og sótti um styrk. Sá hafði öðlast rétt á að gera kvikmynd eftir bók virtrar skáldkonu, segir Þorkell. „Það er mjög í tísku að gagnrýna höfunda kvikmyndaverks ef höfundar eru það sem kallast karllægir.“ Hann segir að þessi umsókn hafi fengið neitun frá Kvikmyndamiðstöð. „Það var kvartað yfir því að hann væri karl og þetta væri um karla og meira að segja hundurinn í verkinu væri karlkyns. Þetta er alveg tekið þangað,“ segir Þorkell. Hann heldur áfram og upplýsir að, allavega hvað hann varðar með hliðsjón af þessum vinnubrögðum þá sé tiltrú á viðkomandi undir frostmarki og vísar þar til KMÍ.

Þeir Markel bræður viðurkenna að þeim sárni þessi vinnubrögð og Þorkell svarar spurningu um það hvort þeim sárni, með þessum orðum. „Maður náttúrulega bara tjúllast, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Maður tjúllast af pirringi. Svo ýtir maður þessu frá sér og les þetta fyrir það sem það er. Hvað á maður að segja?“ Spyr hann og honum fallast hendur.

Þeir félagar ræða nýjustu mynd sína í Dagmálum dagsins og þrátt fyrir lítinn vilja KMÍ eru þeir alls ekki hættir og eru með margvísleg plön á prjónunum. Fleiri veiðiferðamyndir og karlmenn í miðaldra krísu kunna að vera næstu verkefni. En sjón er sögu ríkari. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert