Stjórn Strætó hefur ákveðið að hætta að veita frítt net í vögnum fyrirtækisins. Búnaðurinn sem stýrir fría netinu er orðinn gamall og úreltur og ákveðið hefur verið að fjárfesta ekki í nýjum búnað.
Þetta kemur fram í fundargerð Stætó frá 13. desember.
Strætó hefur boðið upp á frítt net í allmörg ár í vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í fundargerðinni að það hafi í upphafi verið ætlað til að koma til móts við viðskiptavini þegar net í síma var dýrt og lítið gagnamagn innifalið.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir í samtali við mbl.is að notkun á þjónustunni hafi verið þokkalega mikil, eða um 1,5 terabæt (TB) á mánuði.
„Settur var upp búnaður af einfaldri gerð, sem hefur reynst ágætlega, en býður ekki upp á neina stýringu. Það fór því fljótlega að bera á því, eftir að fyrsta greiðsluapp Strætó var innleitt í nóvember 2014, að viðskiptavinir virtust treysta á það til að geta greitt með appinu. Það er hins vegar skýrt í skilmálum Strætó að viðskiptavinir þyrftu að bera ábyrgð á eigin inneign þegar borga átti með appinu,“ segir í fundargerðinni.
Fram kemur að með nýju greiðslukerfið hafi „þetta vandamál“ farið vaxandi og því standi aðeins til boða að fjárfesta í dýru kerfi eða loka fyrir frítt net.
„Stjórn samþykkir tillögu framkvæmdastjóra að hætta með frítt net í vögnum og vinna að útfösun þess,“ segir í fundargerðinni.