Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, kveðst ekki ætla láta sitt eftir liggja í þeirri viðspyrnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að. Spurður hvort að hann íhugi nú framboð í forystuna segir hann að allir landsfundarfarar séu til kjörs.
Þetta kemur fram í samtali hans við mbl.is.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum í hádeginu að breyta ekki dagsetningu landsfundar flokksins. Fer hann því fram dagana 28. febrúar til 2. mars.
Elliði hefur verið orðaður við framboð í Sjálfstæðisflokknum og þá hefur verið nefnt formannsframboð, varaformannsframboð eða ritaraframboð í því samhengi.
Spurður hvort að hann íhugi nú framboð í eitthvert þessara embætta segir hann:
„Hugur minn hefur hingað til ekki staðið til flokkslegra embætta. Ég tek þó stöðu flokksins alvarlega og mun ekki láta mitt eftir liggja í þeirri viðspyrnu sem við sjálfstæðisfólk stefnum nú að. Ég mun mæta á landsfund og þar eru allir fundarmenn í framboði.“