Skæð fuglainflúensa H5N5 herjar nú á fugla, einkum gæsir, í Reykjavík og fjölgun smita og dauðsfalla er áhyggjuefni. Með sumrinu gæti smitum fækkað en þar sem farfuglar gætu komið með ný afbrigði og fuglainflúensan gæti stökkbreyst þá er óljóst hvernig faraldurinn mun þróast.
„Það er áhyggjuefni að það sé mikil og skyndileg fjölgun á dauðum fuglum,“ segir Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir hjá MAST, um stöðuna á fuglainflúensunni.
Hún segir mikilvægt að fuglaeigendur, veri það alifuglabændur eða fólk með hænur í bakgarðinum, séu meðvitaðir um smithættu og geri allt til að hindra samgang villtra fugla og alifugla.
Tveir kettir hafa greinst með fuglainflúensuna H5N5 og þar af drapst einn fyrir jól vegna veirunnar.
Þóra segir það vera áhyggjuefni að veiran greinist í heimilisdýrum, en Ísland er eina landið sem hefur tilkynnt greiningu afbrigðisins H5N5 í heimilisdýri til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (WOAH).
Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði, fann svo 19 dauðar grágæsir í Vatnsmýri í Reykjavík á sunnudag, eins og mbl.is greindi frá.
Þóra segir aðspurð að MAST gangi út frá því að fuglainflúensan H5N5 hafi dregið þær til dauða.
Mikill fjöldi tilkynninga hefur borist MAST að undanförnu og tekur tíma að uppfæra upplýsingar á heimasíðu MAST um smit sem hafa greinst.
Þóra segir að ekki sé til nákvæmar upplýsingar um fjölda fugla sem hafa dáið úr fuglainflúensu af ýmsum ástæðum.
„Við erum ekki að taka sýni úr öllum dauðum fuglum. Þegar við erum búin að greina smit í ákveðinni tegund á þekktum stað og við vitum að fuglainflúensan er þar, þá höldum við ekki áfram að taka sýni úr hverjum einasta fugli. Þannig talning jákvæðra fugla endurspeglar ekki fjölda fugla sem veikjast og drepast,“ segir Þóra.
Fuglainflúensa barst til landsins árið 2021 og síðan þá hafa verið dæmi um fugladauða á landinu. Mikið af súlu drapst til dæmis í Eldey árið 2022 og einnig voru margir mávar sem drápust það ár.
Árið 2023 bárust tilkynningar um hópdauða m.a í lundum, en ekki greindist fuglainflúensa í þeim, en bara einstaka sýni greindust jákvæð það árið.
Möguleg ástæða þess að fólk tekur meira eftir fuglaflensunni nú getur líka verið að smit er nú að greinast í álftum og grágæsum sem halda sig nær mannfólki.
„Það hefur ekki verið áberandi faraldur af þessu afbrigði H5N5 en þessi aukning núna getur bent til þess að það séu einhverjar breytingar,“ segir Þóra Jóhanna.
„Í haust virtust bara vera einstaka tilfelli og ekki mikill fjöldadauði fyrr en þá núna,“ segir hún.
Hún segir að það sé greinarmunur á því hvort að smit komi upp í alifuglabúum eða hjá villtum fuglum.
Smit í alifuglabúum með skæðri fuglainflúensu valdi alltaf miklum dauða og aflífa þurfi fugla í þeim húsum sem smit koma upp af dýravelferðarsjónarmiðum og vegna sóttvarna, en nú sjáist fjölgun smita og dauðsfalla hjá villtum fuglum í vaxandi mæli.
Veiran lifir betur af í kulda þannig Þóra gerir ráð fyrir því að smitum muni fækka í sumar þegar það fer að hlýna, nema farfuglar beri með sér ný afbrigði. En svo getur veiran stökkbreyst og því sé þróunin í raun ófyrirsjáanleg.
„Við sjáum núna breytingar að það er að aukast fjöldi dauðra fugla, við sjáum að það eru tilfelli sem smita yfir í heimilisdýr. En við vitum ekki nákvæmlega hvað mun gerast á næstu mánuðum,“ segir Þóra.
Hún segir mikilvægt að fólk tilkynni til Matvælastofnunar um veika og dauða fugla sem gætu hafa drepist vegna fuglainflúensu. Stofnunin reiðir sig á tilkynningar frá almenning og sveitarfélögum til að vakta þróunina og smitálagið.
Hins vegar þegar fólk sér sjáanlega veika fugla þá er það af dýravelferðarsjónarmiðum mikilvægt að fólk tilkynni slíkt án tafar til viðkomandi sveitarfélags, sem hefur samkvæmt lögum um velferð dýra skyldu til að bregðast við ef villt dýr eru í neyð og koma því til hjálpar eða lina þjáningar þess.
Utan þjónustutíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.