„Ég skil auðvitað að það séu svona miklar tilfinningar. En nú er bara staðan þessi að það er komin ný ríkisstjórn til valda sem er samstiga í orkumálunum, samstiga þegar kemur að aukinni orkuöflun og við munum sýna það í okkar verkum,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Svona svarar Jóhann gagnrýni fyrrverandi umhverfis- og orkumálaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórssonar, á arftaka sinn.
Rammaáætlun, eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, var samþykkt á síðasta kjörtímabili og í aðsendri grein frá Guðlaugi sem birtist í Morgunblaðinu í dag setur hann spurningarmerki við af hverju Jóhann leggi ekki þá vinnu sem nú er tilbúin fyrir þingið.
Í samtali við mbl.is segir Jóhann að á meðal fyrstu verka nýrrar ríkisstjórnar verði að leggja fram rammaáætlun sem hafi setið „stífluð mánuðum saman á vakt fyrri ríkisstjórnar“.
„Og svo munum við einfalda leyfisveitingaferlið meira og stíga stærri skref heldur en Guðlaugur Þór hafði kynnt í möppu sem hann afhenti mér þegar ég tók við embætti. Að því sögðu þá ber ég virðingu fyrir öllum forverum mínum.“
Jóhann segir það þó ekki breyta því að nú sé komin til valda ríkisstjórn sem sé samstiga um aukna orkuöflun og muni ganga hreint til verks.
Þá segir hann að nú sé í gangi ákveðin umræða um afgreiðslu rammaáætlunar sem átti sér stað fyrir einhverjum árum og nefnir hann að forveri sinn hafi t.a.m. greitt atkvæði gegn rammaáætlun þar sem t.d. Þeistareykjavirkjun hafi verið sett í nýtingarflokk sem og þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk.
„Staða orkumála í landinu væri mjög slæm ef allir þingmenn hefðu greitt atkvæði með sama hætti og Guðlaugur Þór.“
Segir Jóhann að Samfylkingin hafi stutt í atkvæðagreiðslum verkefni eins og Hvammsvirkjun og Búrfellslund og að það sé mikilvægt að þau verkefni fái framgang.
„Og það er almennt mikilvægt að þegar löggjafinn hefur ákveðið að virkjanakostir séu í nýtingarflokki, að þeir fái ásættanlegan framgang í stjórnsýslu orkumála, og breytingarnar sem eru núna í farvatninu á leyfisveitingaferlinu miða að þessu.“