Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki formannsframboð á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í lok febrúar. Hún útilokar heldur ekki framboð í önnur embætti í forystu flokksins.
Þetta kemur fram í samtali Guðrúnar við mbl.is.
„Það sem skiptir mestu máli á komandi landsfundi er að sjálfstæðismenn komi saman og brýni erindi sitt við almenning í landinu. Óvinir Sjálfstæðisflokksins, þeir sem tala fyrir hærri sköttum og minna frelsi fyrir fjölskyldur, vinnandi fólk og fyrirtæki verða allir utan veggja Laugardalshallarinnar. Hvort ég bjóði mig fram til formanns eða ekki er ekki rétt spurning á þessum tímapunkti,“ segir Guðrún.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum gær að breyta ekki dagsetningu landsfundar flokksins. Fer hann því fram dagana 28. febrúar til 2. mars.
Guðrún kveðst hafa fengið mikla hvatningu um að bjóða sig fram til formanns og er þakklát fyrir það.
„Ég hef óbilandi trú á framtíð flokksins og íslensku samfélagi. Ég tek áskorunum af æðruleysi og útiloka ekki formannsframboð. Ég mun fyrst og fremst gera það sem ég tel vera flokknum fyrir bestu,“ segir hún.
Kemur til greina að þú bjóðir þig fram í eitthvað annað embætti í forystunni, varaformann eða ritara?
„Það kemur auðvitað allt til greina en ég ítreka það sem ég sagði hér áðan,“ svarar Guðrún.
Ef þú hefur ekki tekið ákvörðun, hvenær má þá vænta hennar?
„Það er ekki mikill tími til stefnu en það verður að fá að koma í ljós,“ svarar hún.