Rússneskur hópur gerði árás á Toyota

Hópurinn hefur staðið á bakvið fjölda árása á íslensk fyrirtæki …
Hópurinn hefur staðið á bakvið fjölda árása á íslensk fyrirtæki þar á meðal stórfellda netárás á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins

Upplýsingafulltrúi Toyota staðfestir að rússneskur hópur, sem kallar sig Akira, standi að baki tölvuárás sem gerð var á kerfi Toyota á Íslandi og Bílanaustar.

Páll Þorsteinsson segir hópinn hafa skilið eftir sig slóð alls staðar í kerfum fyrirtækisins, en þeir vista allar skrár með endingunni „.akira.“

„Þeir eru bara enn að herja á okkur. Þetta eru atvinnumenn.“

Hópurinn hefur staðið á bak við fjölda árása á íslensk fyrirtæki þar á meðal stórfellda netárás á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, þar sem hann tók gríðarlegt magn gagna í gíslingu.

Reyna að ná sambandi við starfsfólk

Þeir reyni nú að láta vita af sér í gegnum tölvupósta til starfsfólks, sem forðist þó að sjálfsögðu að opna þá. Aðspurður kveðst Páll ekki vita til þess að hópurinn hafi reynt að ná sambandi við viðskiptavini Toyota.

Spurður hvort fyrir liggi hvernig þrjótarnir hafi brotið sér leið inn í kerfið svarar Páll neitandi.

„Við auðvitað teljum okkur vera í góðu standi og það eru tveir mánuðir síðan að við fórum yfir alla ferla og þeir eru í raun alltaf í endurskoðun. En það er eins og í öllum keðjum það er alltaf einn hlekkur sem er veikastur og þar lúra þeir og ráðast inn þegar færi gefst.“

Starfsmenn netöryggisfyrirtækisins Syndis og OK hafa unnið með tölvudeild Toyota frá því í gærmorgun við að rannsaka árásina, byggja tölvukerfin upp á ný og fyrirbyggja frekari skaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert