Allar nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi

Hörður ræddi við mbl.is um dóm héraðsdóms.
Hörður ræddi við mbl.is um dóm héraðsdóms. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklar líkur eru á því að Landsvirkjun áfrýi dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Túlka má dóminn þannig að ekki sé hægt að ráðast í neinar nýjar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi.

Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.

Í dómnum kom fram að Umhverfisstofnun væri ekki heimilt að veita heimild fyrir breytingu á vatnshloti.

Samkvæmt dómnum þá gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipunin var sett í lög árið 2022 en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.

Breyting á vatnshloti þýðir að verið sé að breyta til dæmis rennsli, sem gerist þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar. Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun.

Óheimilt að virkja vatnsafl miðað við dóminn

„Hann túlkar lagasetninguna þannig að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að veita breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun. Sem þýðir bara að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun,” segir Hörður en tekur fram að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn.

Setur þetta þá öll frekari vatnsaflsvirkjanaáform í uppnám?

„Ef túlkunin er svona þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám,“ segir Hörður.

Annmarkar í meðferð málsins á þingi

Hann segir ljóst að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum en dómurinn sé frekar að segja að annmarkar hafi verið í meðferð málsins á Alþingi.

Nefndin sem var með málið til umfjöllunar hafi, að mati dómsins, ekki gert það nógu skýrt hver vilji stjórnvalda væri – að heimila vatnsaflsvirkjanir.

Spurður hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp segir Hörður:

„Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans að það séu ágallar á frumvarpinu, sem er þannig að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég að það sé einboðið að það þurfi að skoða það,“ svarar Hörður.

Munu líklega áfrýja

Aldrei hefur reynt á þetta fyrir dómi fyrr en nú og Hörður segir líklegt að Landsvirkjun muni áfrýja málinu.

„Við tökum daginn í dag og á morgun til að greina stöðuna og við munum líka ráðfæra okkur við stjórnvöld því það er alveg ljóst að okkar mati að þetta er ekki markmiðið með lagasetningunni,“ segir Hörður og bætir við:

„Það er mjög miklar líkur á því að við munum áfrýja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert