Kona sem varð vitni að karlmanni ganga inn í kvennaklefa í líkamsræktarstöðinni World Class í Laugum í morgun furðar sig á því að Björn Leifsson, eigandi World Class, segi ekki rétt frá atvikinu í fjölmiðlum.
Konan sem mbl.is ræddi við vill ekki koma fram undir nafni.
Hún segir konuna sem birti nafnlausa færslu í Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu segja rétt frá atvikinu.
Í færslunni er því lýst að fjölmargar konur hafi verið í klefanum þegar maður gekk inn til að gera við klósettrúlluhaldara. Segir þar að kvenkyns starfsmaður gekk inn í klefann á undan og tilkynnti komu mannsins en að aðeins fáar konur hafi heyrt í stúlkunni. Undir þetta tekur vitnið og segir það ómögulegt að konur sem hafi til dæmis verið í sturtu í klefanum hafi heyrt af komu viðgerðarmannsins.
Að því er segir í nafnlausu færslunni var viðgerðarmaðurinn sem um ræðir bróðir Björns og meðeigandi World Class.
Björn sagði í samtali við blaðamann mbl.is fyrr í dag að konan í færslunni færi með rangt mál.
Sagði hann að konan hafi verið eini iðkandinn í klefanum þegar maðurinn gekk inn og að kvenkyns starfsmaðurinn hafi kallað hátt og skilmerkilega yfir klefann að það væri karlkyns viðgerðamaður á leiðinni inn.
Björn sagði jafnframt að aðrir þættir í nafnlausu færslunni stæðust ekki skoðun.
Atvikið átti sér stað á milli klukkan átta og níu í morgun.
Vitnið segir í samtali við blaðamann mbl.is að framkoma viðgerðarmannsins hafi verið furðuleg. Hann hafi hlegið þegar hann gekk inn í klefann, þóst halda fyrir augun og sagt „ég lofa að kíkja ekki stelpur“.
„Ég stóð þarna orðlaus og svo sé ég hann taka höndina fyrir augunum og kíkja,“ segir vitnið.
Vitnið segir að eftir að hún yfirgaf klefann hafi hún farið í móttökuna í World Class og óskað eftir því að ræða við yfirmann á staðnum. Stúlkan í afgreiðslunni tilkynnti henni þá að enginn yfirmaður væri á svæðinu en benti henni á að senda tölvupóst þar sem hún gæti komið kvörtunum sínum á framfæri.
Það gerði konan en hefur enn ekki fengið svör.