Fluglitakóði fyrir Grímsvötn hækkaður í gulan

Grímsvötn.
Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fluglitakóði fyrir Grímsvötn hefur verið hækkaður í gulan. Er þetta gert sökum aukins óróa í eldstöðinni, sem talið er að rekja megi til meiri jarðhitavirkni eftir að mikið vatn hefur hlaupið þaðan.

Álíka órói hefur mælst við fyrri Grímsvatnahlaup þegar þau nálgast hámarksrennsli.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum í kjölfar þrýstiléttis á borð við þennan. Því er ekki hægt að útiloka að eldgos verði. 

Vegna þessa hefur fluglitakóðinn verið færður upp á næsta stig, gult, sem merkir að eldstöð sýni virkni umfram venjulegt ástand.

Meira vatnsmagn í Gígjukvísl

Vatnsmagn í Gígjukvísl heldur áfram að aukast jafnt og þétt en úrkoma á svæðinu hefur einnig áhrif, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu.

Áfram er gert ráð fyrir því að hámarksrennsli verði í Gígjukvísl um 1-2 sólarhringum eftir að rennsli nær hámarki úr Grímsvötnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert